Leggja allt kapp á að kaupa Norðmanninn

Martin Ødegaard í leik með Arsenal í apríl.
Martin Ødegaard í leik með Arsenal í apríl. AFP

Knattspyrnumaðurinn Martin Ødegaard er efstur á óskalista enska úrvalsdeildarfélagsins Arsenal í sumar. Það er Football London sem greinir frá þessu.

Ødegaard lék með Arsenal seinni hluta síðasta tímabils á láni frá Real Madrid þar sem hann stóð sig mjög vel og var einn af lykilmönnum liðsins.

Hann sneri aftur til Spánar eftir tímabilið og hafði Real Madrid lítinn áhuga á því að selja leikmanninn þegar Zinedine Zidane var með liðið.

Zidane lét hins vegar óvænt af störfum á dögunum og var Carlo Ancelotti ráðinn í hans stað en Ancelotti er sagður tilbúinn að selja Norðmanninn til þess að safna fé til frekari leikmannakaupa.

Ødegaard, sem er 22 ára gamall, er verðmetinn á 40 milljónir punda en hann lék fjórtán leiki í ensku úrvalsdeildinni á síðustu leiktíð þar sem hann skoraði eitt mark og lagði upp tvö.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert