Lokamarkmið að endurheimta eðlilegt líf

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir breytingar á eðli kórónuveirufaraldursins kalla á breytta nálgun á samkomutakmörkunum og sóttvarnaaðgerðum. Hún segir fulla ástæðu til bjartsýni en að stærsta verkefnið núna sé að tryggja það að Landspítali ráði við stöðuna.

Katrín segir varfærni hafa skilað okkur góðum árangri hingað til en að auðvitað sé loka markmiðið að endurheimta eðlilegt líf.

Í sameiginlegrei grein sem Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra og Guðlaug Rakel, settur forstjóri Landspítala, birtu í gær kom fram að fram undan væru lokametrar þessarar bylgju í faraldrinum. Þyrftum við að stíga varfærin skref í átt að afléttingum.

Aflétta um leið og hægt er

Landspítali er enn á neyðarstigi en um leið og sérfræðingar og heilbrigðisráðherra meta það sem svo að hægt sé að taka skref í átt að afléttingum verður það gert, segir Katrín.

„Við heilbrigðisráðherra erum í daglegum samskiptum um stöðuna og höfum verið að eiga þessa fundi með sérfræðingum. Eðlilega, eins og ég sagði á föstudaginn þá erum við að sjá að faraldurinn hefur breytt um eðli. Þá þýðir það auðvitað breytt aðferðafræði og breytt nálgun í þessu verkefni.“

Horfa til fleiri þátta

Að sögn Katrínar þurfa stjórnvöld að horfa á meira en bara innlagnarhlutfall og stöðu spítalans þegar kemur að afléttingum enda þurfi að taka tillit til margra ólíkra þátta þegar góðar og skynsamar ákvarðanir eru teknar fyrir samfélagið. 

„Þó innlagnarhlutfallið sé lágt þá spilar auðvitað þrennt inn í sem hefur haft þau áhrif að það hafa verið í gildi takmarkanir. Það er í fyrsta lagi þessi mikli fjöldi smita sem kallar á það að það eru mjög margir í einangrun og sóttkví – til dæmis á spítalanum. Í öðru lagi þá eru miklu fleiri að smitast en til dæmis í hefðbundinni flensu, þó að innlagnarhlutfallið sé lágt þá eru samt fleiri einstaklingar að leggjast inn. Og síðan í þriðja lagi þá höfum við lært það á síðustu mánuðum að veiran er ófyrirsjáanleg.“

Takmarkanir endurskoðaðar víða

Katrín ítrekar þó að mikilvægar afléttingar hafi nú þegar átt sér stað er varðar breytingar á fyrirkomulagi einangrunar og sóttkvíar.

Spurð hvort hún telji að enn frekari breytingar séu væntanlegar á því sviði, segir Katrín að lokamarkmiðið sé ávallt að endurheimta eðlilegt líf. 

„Það getum við náttúrulega með því að taka þessar ígrunduðu ákvarðanir og mér hefur sýnst það að þetta sé eitt af því sem að verið er að endurskoða víða. Og á þeim gögnum hefur heilbrigðisráðherra byggt þegar hann hefur tekið sínar ákvarðanir í samráði við sóttvarnalækni.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert