Hleðslustöðvum fjölgar um allt land

Orka náttúrunnar, ON, er með langflestar stöðvar.
Orka náttúrunnar, ON, er með langflestar stöðvar. mbl.is/Íris Jóhannsdóttir

Orkustofnun (OS) hefur sett flestar hleðslustöðvar á landinu sem opnar eru almenningi inn á kortavefsjá sína. Þar má finna bæði hraðhleðslustöðvar og minni stöðvar á landinu. Alls eru þetta um 350 stöðvar, eins og kortið lítur út, með um 670 tenglum. Það eru þó ekki tæmandi tölur um fjöldann.

Þessi þjónusta ætti að nýtast ferðalöngum á rafbíl til að skipuleggja sínar ferðaáætlanir með tilliti til hleðslumöguleika á hverju svæði fyrir sig, eins og segir á vef OS.

Á kortinu má finna staðsetningar og aflgetu hleðslustöðva en auk þess eru þarna upplýsingar um rekstraraðila og lykilþjónustu, t.d. hvort er gisting, eða salernis- og veitingaaðstaða á staðnum.

Orkustofnun hefur ekki staðfestar upplýsingar um rekstraraðila allra stöðva en eins og skráningin er núna kemur ekki á óvart að Orka náttúrunnar, ON, er skráð fyrir langflestum stöðvunum, með fjórar af hverjum tíu. Þar á eftir koma Ísorka og Orkusalan. Orkubú Vestfjarða rekur nokkrar, sem og Olís og N1. Afl flestra stöðvanna er undir 50 kílóvöttum en þá stærstu rekur Tesla í Staðarskála, 250 kílóvött, með átta tenglum.

Kort/mbl.is

Nokkrir starfsmenn OS hafa unnið að þessu verkefni í sumar. Einn þeirra, Sigurður Elías Hjaltason, segir við Morgunblaðið að kortið verði uppfært og lagað eftir því sem nýjar stöðvar rísa eða breytingar verða á þjónustu á þessum stöðvum.

Ábendingar og leiðréttingar er hægt að senda á hledsla@os.is en kortavefsjáin er á eftirfarandi slóð: https://map.is/os. bjb@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert