Saknar bakstursins – froðukennd myndbönd

Einar Þorsteinsson, Hildur Björnsdóttir og Pawel Bartoszek láta öll ljós …
Einar Þorsteinsson, Hildur Björnsdóttir og Pawel Bartoszek láta öll ljós sitt skína í kosningamyndböndum. Samset

Hjóla, labba, á rafmagnshlaupahjóli, í strætó eða að sinna hundinum. Allt þetta og fleira til má sjá í kosningamyndböndum frambjóðenda í sveitarstjórnarakosningunum sem fram fara á morgun. Eydísi Blöndal, fyrrverandi varaþingmanni VG, skáldi og greinanda hjá AtonJL þykir flest myndbönd frambjóðanda í borginni hálf litlaus.

„Besta myndbandið sem ég hef séð er það sem Viðreisn gerði með Pawel,“ segir Eydís í samtali við mbl.is en þar má sjá Pawel Bartoszek, frambjóðand Viðreisnar, gera stólpagrín að sjálfum sér og öðrum stjórnmálamönnum.

Eydísi þykir óvenju lítið fútt í kosningabaráttunni sem leiði til þess að myndböndin verði oftar en ekki froðukennd og utan Viðreisnar sé fátt um fína drætti.

„Ég veit ekki af hverju ég ætti að kjósa einhvern flokk af því einhver er að hjóla eða labba með hundinn sinn. Maður upplifir ekki mikil málefnaleg átök,“ segir Eydís en setur þann fyrirvara að mögulega eigi fjör eftir að færast í leikinn á lokasprettinum.

Myndböndin fylgja flest öll þeirri forskrift að frambjóðandi gengur mikið, horfir beint í myndavélina og talar um það sem vel hefur verið gert og halda þurfi áfram að gera eða það sem betur megi fara. Fer það eftir því hvort flokkurinn var í meirihluta eða ekki.

„Það er oft þannig að þegar maður er að koma sínum stefnumálum á framfæri þá er þetta einhvernvegin leiðin sem fólk kýs oftast að fara,“ segir Eydís.

Henni þykir flokkarnir ragir við að taka afstöðu og margt sé á rosalega almennum nótum:

„Þeir segjast vilja góðar samgöngur fyrir alla. Þetta er engin afstaða. Viljið þið Borgarlínu eða hvað er verið að tala um? Þetta verður froðukennt og myndböndin eftir því. Ekkert þessara myndbanda fær mig til að taka einhverja afstöðu, með eða á móti flokkunum.“

Eydís Blöndal.
Eydís Blöndal. mbl.is/Kristinn Magnússon

Eydís segir besta kosningamyndband síðustu ára að hennar mati þegar Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, bakaði köku eins og frægt varð í aðdraganda alþingiskosninga 2016.

„Ég sakna þess svolítið að það sé enginn að baka. Það hefur oft reynst vel,“ segir Eydís og hlær þegar hún er spurð hvort Bjarni eigi líklega einkarétt á því kosningatrixi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert