Hljótið að búa í hreinni paradís

íslensk fjölskylda að horfa á kanasjónvarpið síðla árs 1961.
íslensk fjölskylda að horfa á kanasjónvarpið síðla árs 1961. Mbl.is/Ólafur K. Magnússon

„Þessu til staðfestingar skal ég geta þess rétt til gamans, að fjölmargir Bandaríkjamenn sem hafa spurt mig um sjónvarp á Íslandi, og fengið þau svör að hér væri ekki sjónvarp, hafa sagt við mig í römmustu alvöru: „Prísið ykkur sæla. Þið hljótið að búa í hreinni paradís.““

Þessi orð skrifaði Sigurður A. Magnússon rithöfundur í Morgunblaðið á aðventunni 1961. Hann var þá að svara nafna sínum, „Sigurði gamla", sem ritað hafði grein í sama blað nokkrum dögum áður til að lofsyngja þennan nýja og framandi miðil sem hann vildi ólmur fá til landsins. 

Sigurður A. kvaðst hafa þriggja og hálfs árs reynslu af bandarísku sjónvarpi, og auk þess talsverða reynslu af sjónvarpi í Danmörku, Þýskalandi og Bretlandi. Á þeirri reynslu byggði hann afstöðu sína til sjónvarps á Íslandi. Hann viðurkenndi gildi þess til fréttaflutnings og kennslu, en taldi kostina ekki vega upp á móti löstunum, sem væru margir. Hann benti á að margfalt auðugri og mannfleiri þjóðum en Íslendingum hefði reynst nær ókleift að halda uppi sæmilegri sjónvarpsdagskrá, hvað þá meira.  

Fornfáleg pera í heilalampanum

„Sigurður gamli“ var á allt öðru máli. „Það hefur vakið furðu mína,“ skrifaði hann, „hvað ýmsir þeirra, sem hafa þurft að láta ljós sitt skína á almannafæri vegna sjónvarpsins, hafa haft daufa og fornfálega peru í heilalampanum. Menn, sem eru mér mörgum áratugum yngri, tala eins og eldgamlir afturhaldsgaurar, sem eru hræddir við allt nýtt, og eira engu fyrr en þeir hafa komið lögum yfir alla hluti og þá helzt bannlögum. Eg hélt, að ríkistilskipana- og bannlagaæði tilheyrði eingöngu fasisma og kommúnisma, þar sem þróunin er barin niður eins lengi og hægt er með kylfu löggjafans.“

Sigurður A. Magnússon var ekki spenntur fyrir sjónvarpi.
Sigurður A. Magnússon var ekki spenntur fyrir sjónvarpi. mbl.is/Ólafur K. Magnússon

Hann taldi lítið gagn í því að spyrna fótum við hinu óhjákvæmilega. Sjónvarpið væri komið og kæmi í enn ríkara mæli, ekki síður en sími, útvarp og kvikmyndir. „Bændur riðu frá miðjum heyönnum til Reykjavíkur til þess að mótmæla símanum, og nú fá menn mynd af sér í blöðum og fá að tala í útvarpið til þess að mótmæla sjálfsögðum hlut.“

„Sigurður gamli““ lauk máli sínu á þessum orðum: „Nei, það þýðir ekki að berjast gegn þróuninni, mínir herrar. Sjónvarpið er mesta menningartæki, sem fundið hefur verið upp, næst leturgerð. Það flytur menninguna beint inn á heimilin, sjónleiki, balletta, kvikmyndir o.s.frv. og einna mestu máli skiptir fréttaþjónustan, sem færir þjóðir heims nær hver annarri.“

Stappar nærri því að vera fjarstæða

Sigurði A. Magnússyni þótti samanburður á sjónvarpi annars vegar og síma, kvikmyndum og útvarpi hins vegar vera út í hött, og yfirlýsing „Sigurðar gamla“ um að sjónvarpið sé „mesta menningartæki, sem fundið hefur verið upp, næst leturgerð“, stappaði nærri því að vera fjarstæða, að ekki sé meira sagt.


„Sjónvarpið er sennilega áhrifamesta áróðurs- og útbreiðslutæki sem til er, en það er ekki fremur menningartæki en ómenningartæki, og hefur því miður gegnt seinna hlutverkinu að langmestu leyti hingað til, hvað sem verða kann.“

Sigurður A. sætti sig þó við að sjónvarp kæmi hingað eins og annað, strax og það væri óhjákvæmilegt, þ.e.a.s. þegar alheimssjónvarp með gervihnöttum kæmist á. Hins vegar sá hann enga ástæðu til að fara að ana út í að reisa íslenska sjónvarpsstöð eða stækka erlenda stöð, sem væri óæskileg, fyrr en ljóst yrði hvaða skilyrði alheimssjónvarp útheimti hér. „Fram að þeim tíma væri kannski ekki úr vegi að leitast við að hafa ögn bætandi áhrif á smekk landsmanna, t.d. með hóglátari og rólegri blaðaskrifum, „Sigurður“ minn góður.“

Nánar er fjallað um þessa áhugaverðu ritdeilu í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert