Xizt leggur músina á hilluna

Xizt fagnar sigri á IEM Oakland 2017.
Xizt fagnar sigri á IEM Oakland 2017. Skjáskot/youtube.com/NinjasinPyjamas

Sænski Counter-Strike:Global Offensive leikmaðurinn Richard „Xizt“ Landström hefur lagt músina á hilluna og tekið lyklaborðið úr sambandi og segir skilið við hlutverk sitt sem atvinnurafíþróttamaður.

Bindur hann nú enda á tólf ára atvinnumannaferil sinn, eftir að hafa unnið marga titla og spilað fyrir nokkur stór rafíþróttafélög, s.s. fnatic, Ninjas in Pyjamas, FaZe og Dignitas.

Gerði garðinn frægan með Ninjas in Pyjamas

Gerði Xizt garðinn frægan sem fyrirliði Ninjas in Pyjamas, einnig þekkt sem NiP, fyrstu sex ár ferils síns í Counter-Strike:Global Offensive, en hafði hann áður spilað með atvinnurafíþróttaliðum í Counter-Strike.

Með liði NiP sigraði hann fleiri en 20 LAN-mót og stórmótið ESL One Cologne 2014 Major. Hefur hann samtals sigrað þrjá Intel Extreme Masters titla á ferli sínum ásamt því að hafa unnið fjöldann allann af öðrum mótum.

Ákvörðunin ekki auðveld

„Ferilinn minn hefur átt sínar hæðir og lægðir, en þegar ég lít til baka sé ég að þetta hefur verið ótrúlegt og ógleymanlegt ferðalag,“ er haft eftir tilkynningu Xizt um ákvörðun hans. 

„Það var ekki auðvelt að taka ákvörðun um að hætta, en ég hef oft hugsað um að hætta síðustu ár. Þegar ég fékk svo frí til að hugsa um hlutina áttaði ég mig á því að áframhaldandi spilun var ekki lengur valkostur,“ er haft eftir Xizt í viðtalið við HLTV.org. 

„Síðustu ár hafa ekki farið einsog ég ætlaði mér, og ég stóð mig ekki eins vel og ég vildi í leiknum. Ég var hættur að njóta leiksins og var fljótur að verða reiður, sem hafði áhrif á líf mitt utan leiksins og ég hafði ekki lengur metnað til að æfa og gera það sem þarf til að vera topp leikmaður.“

Ekki tilbúinn að segja skilið við CS:GO

Segir hinn 30 ára Xizt ekki vera tilbúinn að segja skilið við CS:GO fyrir fullt og allt, og hefur hann áhuga á að halda áfram að starfa í rafíþróttum. Hann hefur áhuga á margskonar þjálfun og öðrum þáttum sem tengjast CS:GO, enda þekkir hann leikinn vel og hefur mikla reynslu.

Hann þakkar liðsfélögum, aðdáendum og öllum þeim sem hafa verið hluti af ferðalagi hans fyrir stuðninginn.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert