„Þá voru allir búnir að afskrifa okkur“

Gunnar Magnús Jónsson
Gunnar Magnús Jónsson mbl.is/Eggert Jóhannesson

Gunnar Magnús Jónsson er búinn að vera með lið Keflavíkur í sex ár núna en lið hans tryggði endanlega veru sína í efstu deild kvenna í dag. Keflavík fór til Akureyrar og mætti Þór/KA í lokaumferð Pepsi Max-deildarinnar. 0:0 jafntefli varð niðurstaðan og stigið tryggði Keflvíkingum sæti sitt i deildinni. Tap hefði reyndar engu breytt þar sem Tindastóll náði ekki sigri gegn Stjörnunni. 

„Þetta er búið að vera flott hjá okkur í síðustu leikjum og eftir erfiðleika um miðbik móts þá voru allir búnir að afskrifa okkur. Fyrir síðustu leikina þá vorum við í botnsætinu en lokaleikirnir voru góðir. Síðustu fimm leikina áttum við eftir að spila á Sauðárkróki, í Eyjum og hér á Akureyri. Svo áttum við eftir að fá tvö bestu lið landsins til okkar. Þetta leit ekki vel út á þessari stundu en við brugðumst bara við því með því að þétta liðið með smá tilfærslum og hleypa engum að markinu hjá okkur.“ 

Liðsmenn þínir fögnuðu líka innilega hér úti á velli með söng og nú heyrum við í þeim inni í klefa. Þetta áttunda sæti er kærkomið. En þegar litið er á framhaldið þá kvikna strax tvær spurningar. Verður þú áfram með liðið og verður áframhaldandi uppbygging í Keflavík til að koma liðinu ofar og festa það í sessi sem lið í efstu deild. 

„Já, það er nú bara óákveðið með hvað ég geri. Nú ætla ég bara að hvíla mig smá og sjá svo hvað verður. Alveg óháð því þá er mikill efniviður í Keflavík og mikið af mannskap að koma upp þannig að við viljum halda áfram að byggja upp lið og bæta okkar árangur. 

Það hefur nú verið viðkvæðið að lið úr neðri hlutanum missa oft sína bestu menn og Keflvíkingar eru að búa til gæðaleikmenn, landsliðsmenn. 

„Það er oftast þannig með þau lið sem hafa fallið að það sé reitt af þeim. Það er auðveldara að halda sínum mönnum þegar liðið er áfram í efstu deild. Nú er bara að byggja áfram á þessum kjarna að heimakonum og svo einhverjum sterkum útlendingum í bland. Það verður vonandi svoleiðis áfram en auðvitað viljum við byggja sem mest á heimakonum“ sagði Gunnar Magnús að lokum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert