Enski boltinn

Enginn spilað meira en Bruno Fernandes

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Bruno Fernandes fær ekki mikla hvíld.
Bruno Fernandes fær ekki mikla hvíld. Getty Images

Bruno Fernandes, miðjumaður Manchester United, verður seint sagður latur knattspyrnumaður. Enginn leikmaður í bestu fimm deildum Evrópu hefur spilað meira en Portúgalinn á þessari leiktíð.

Manchester United vann 1-0 útisigur á Real Betis frá Spáni á fimmtudaginn var. Bruno Fernandes var í byrjunarliði Man United þó svo að félagið hefði unnið fyrri leik liðanna 4-1 á Old Trafford.

Þetta var 43. leikur hans í treyju Man Utd á tímabilinu. Einnig hefur hann spilað 11 landsleiki og leikirnir á yfirstandandi leiktíð þar af leiðandi orðnir 54. Man United á að lágmarki eftir 15 leiki á leiktíðinni, líklega fleiri, og þá er Bruno í landsliðshóp Portúgals sem mæta Liechtenstein og Lúxemborg í undankeppni EM 2024 síðar í þessum mánuði.

Þrátt fyrir gríðarlegt álag þá virðist ekkert hægjast á Bruno. Hann var enn á fullu rétt áður en hann var tekinn af velli gegn Betis á fimmtudag. Klukkaði hann þar 68 mínútur sem þýðir að hann hefur nú spilað 3751 mínútur á leiktíðinni. Enginn leikmaður efstu fimm deilda Evrópu hefur spilað meira.

Venjulega eru það markverðir sem toppa lista yfir spilaðar mínútur og er einn slíkur í öðru sæti. Það er David De Gea, samherji Bruno hjá Man Utd. Sá hefur spilað 3690 mínútur á leiktíðinni. Í 3. sæti er svo Vinícius Júnior með 3510 mínútur spilaðar.

Landsleikir eru ekki teknir með í myndina en ef svo væri þá væri Bruno enn lengra á undan De Gea yfir mínútur spilaðar.

Það má reikna með að  Bruno verði í byrjunarliði Man United í dag þegar liðið mætir Fulham í 8-liða úrslitum ensku bikarkeppninnar. Hefst leikurinn klukkan 16.30 og er sýndur beint á Stöð 2 Sport 2.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×