Nærri tvö þúsund manna byggð

Fjörutíu vegleg einbýlishús af ýmsum stærðum og gerðum verða í …
Fjörutíu vegleg einbýlishús af ýmsum stærðum og gerðum verða í fallegu umhverfi á Hraunlóðunum í Litla-Tunguskógi í Húsafelli. mbl.is/Helgi Bjarnason

Fyrsta húsið í nýrri íbúðahverfi í Litla-Tunguskógi í Húsafelli í Borgarfirði verður afhent eiganda einhvern næstu daga. Um 30 smiðir og aðrir iðnaðarmenn hafa verið að byggja fyrstu 14 húsin í hverfinu og verða áfram en framkvæmdir hafa aðeins riðlast í vetur vegna veðurs, kórónuveirufaraldursins og erfiðleika við að útvega efni vegna stríðsins í Úkraínu.

Skipulags- og byggingarnefnd Borgarbyggðar hefur lagt til við sveitarstjórn að aðal- og deiliskipulagi verið breytt þannig að 40 lóðir í hverfinu verði skilgreindar sem lóðir undir íbúðarhús í stað frístundahúsa en 14 lóðir austast á svæðinu verði áfram frístundalóðir. Lagt er til að skipulagsbreytingin verði auglýst.

Eigendur Húsafells byggja sjálfir hús á þessum 40 lóðum og afhenda kaupendum á ýmsum byggingarstigum. Flest verða þó afhent fullbúin. Búið er að selja meginhluta húsanna. 14 lóðir austast á svæðinu eru seldar einstaklingum og verða hluti af frístundabyggðinni í Húsafelli.

Bergþór Kristleifsson segir að fyrstu húsin séu að verða tilbúin fyrir innréttingar. Byrjað sé að mála og einhver húsanna sem seld eru á því byggingarstigi verði afhent á næstunni.

Erfitt að fá efni í byggingar

Hverfið byggist upp í áföngum. Nú er verið að ganga frá fyrstu fjórtán húsunum og verið að undirbúa næsta áfanga. Hermann Hermannsson byggingarstjóri segir að einingarnar séu smíðaðar inni á verkstæði í Húsafelli og síðan reistar á steyptum undirstöðum og gengið frá þeim á staðnum.

Hann segir að vonast hafi verið eftir hagstæðu veðri til framkvæmda í vetur, eins og verið hafi síðustu árin. Veður hafi hins vegar verið vond auk þess sem faraldur og stríð hafi sett strik í reikninginn, eins og margar aðrar framkvæmdir í landinu. Reynt hafi verið að skrapa saman efni til að eiga nóg því ekki sé vitað hvenær næsta sending komi. Mesta röskunin hefur orðið vegna seinkunar á afhendingu glugga og hurða því erfitt er að reisa hús nema vitað sé fyrir víst hvenær gluggarnir koma. Hermann segir að það hafi skapað erfiðleika við skipulagningu vinnunnar.

Hermann segir að ekki séu margir að leita sér að vinnu um þessar mundir en tekur fram að gengið hafi þokkalega að manna vinnuflokkana. Margir smiðir úr Borgarfirði eru við verkið en einnig hafa verið ráðnir menn frá öðrum löndum.

Hann segir að kaupendur hafi sýnt þessum aðstæðum skilning. Þeir átti sig á því að verið sé að gera allt sem hægt er til að halda verkunum áfram.

Samhliða byggingu húsanna er unnið að innviðum, svo sem lagningu vega, rafmagns, hitaveitu, vatnsveitu og ljósleiðara. Mikið af innviðunum er á vegum eigenda jarðarinnar. Þeir framleiða rafmagnið og reka veitur og ljósleiðarakerfi.

Lengri umfjöllun um málið má finna í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert