„Hörmulegt vítaklúður hjá mér“

Theodór Elmar Bjarnason (nr. 16) í skallabaráttu við Guðmund Baldvin …
Theodór Elmar Bjarnason (nr. 16) í skallabaráttu við Guðmund Baldvin Nökkvason í kvöld. mbl.is/Hákon Pálsson

Theodór Elmar Bjarnason kom mikið við sögu í 1:1-jafntefli KR gegn Stjörnunni í Bestu deild karla í knattspyrnu í kvöld. Klúðraði hann til að mynda vítaspyrnu en lagði svo upp jöfnunarmark KR í uppbótartíma.

„Þetta var erfiður leikur. Þeir lögðust djúpt og það var erfitt að brjóta þá á bak aftur en við sköpuðum meira en nóg af færum til þess að taka þrjú stig með okkur í dag, þar á meðal hörmulegt vítaklúður hjá mér sem setti strik í reikninginn.

En það er bara áfram gakk, ég náði aðeins að bæta upp fyrir það í lokin með stoðsendingu en engu að síður var þetta lélegt,“ sagði Theodór Elmar í samtali við mbl.is að leik loknum.

Eftir að hafa klúðrað vítaspyrnunni á 70. mínútu með því að skjóta yfir markið sagði hann það vissulega hafa verið mikinn létti að ná að leggja upp jöfnunarmark fyrir Atla Sigurjónsson, sem kom eftir laglegan sprett og góða fyrirgjöf Theodórs Elmars.

„Það var gríðarlegur léttir. Við vorum búnir að ýta þeim langt niður og skapa fullt af fínum færum en boltinn vildi ekki inn. En þetta kom í lokin. Eitt stig er eitt stig úr því sem komið var og við tökum það bara með okkur í næsta leik.“

Pálmi Rafn Pálmason hefur verið vítaskytta KR í gegnum árin og þá hefur Kjartan Henry Finnbogason skorað úr þeim ófáum fyrir liðið í gegnum tíðina.

Var fyrirfram ákveðið að Theodór Elmar myndi taka vítaspyrnu ef KR fengi slíka í kvöld?

„Við erum tveir sem erum settir á víti og ég var einn af þeim. Mér leið vel í leiknum þannig að ég steig upp en þetta endaði ekki nógu vel. Svona er þetta, þetta er upp og niður í þessu,“ sagði hann að lokum í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert