Freyr með sína menn á toppinn

Freyr Alexandersson er í toppslag með Lyngby.
Freyr Alexandersson er í toppslag með Lyngby. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Knattspyrnuþjálfarinn Freyr Alexandersson komst með lið sitt Lyngby í efsta sæti dönsku B-deildarinnar í knattspyrnu í kvöld þegar það vann afar mikilvægan heimasigur gegn Hvidovre, 1:0, á heimavelli.

Liðin voru fyrir leik í þriðja og fjórða sæti í hnífjafnri keppni fjögurra liða um tvö sæti í úrvalsdeildinni.

Magnus Westergaard skoraði sigurmark Lyngby í byrjun síðari hálfleiks við mikinn fögnuð um 4.000 áhorfenda en Lyngby fær bestu aðsóknina hjá öllum liðum deildarinnar.

Sævar Magnússon kom inn á sem varamaður hjá Lyngby á 76. mínútu en Frederik Schram var að vanda í hlutverki varamarkvarðar. Þeir voru einu leikmennirnir í átján manna hópi Lyngby sem ekki eru danskir.

Lyngby er nú með 56 stig á toppnum og betri markatölu en Horsens sem er líka með 56 stig en á leik til góða. Helsingör er með 54 stig og á leik til góða og Hvidovre er með 50 stig. Leikurinn var liður í 29. umferð af 32 í deildinni sem er leikin með sama fyrirkomulagi og úrvalsdeildin, tólf lið sem er skipt í tvo hluta eftir hefðbundnar 22 umferðir. Sama fyrirkomulag og nú er á Bestu deild karla hér á Íslandi, nema hvað hér er leikin einföld umferð í úrslitakeppninni, fimm leikir, á meðan dönsku liðin leika tvöfalda umferð, tíu leiki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert