Stærsta sundknattleiksmót sem haldið hefur verið

Frítt föruneyti iðkenda sundknattleiks hjá Ármanni.
Frítt föruneyti iðkenda sundknattleiks hjá Ármanni. Ljósmynd/Ármann

Stærsta sundknattleiksmót sem haldið hefur verið á Íslandi fer fram í Laugardalslaug næstu daga, frá 25. til 28. maí.

Leikið verður á tveimur völlum í innilauginni síðdegis í dag og alla helgina, en aðgangur að áhorfendapöllum er ókeypis. Áhugasömum gefst því tækifæri til þess að kynna sér sundknattleik, sem er í örum vexti á Íslandi en hefur notið vinsælda víða annars staðar.

Mótið heldur sundknattleiksdeild Ármanns, undir stjórn Glenns Moyle, fyrrverandi landsliðsmanns Nýja-Sjálands. Glenn hefur þjálfað liðið síðastliðin 12 ár og samkvæmt tilkynningu frá félaginu hefur fjöldi félagsmanna margfaldast á seinni árum og umfang starfsins aukist mjög í samræmi við það.

Leikið verður í dag milli klukkan 17 og 20 og um helgina milli klukkan 12 og 18. Ekki verður leikið á morgun, föstudag.

Sautján lið frá tólf félögum munu leika á mótinu og koma þau víða að, til að mynda frá meginlandi Evrópu, Ástralíu og Norður-Ameríku.

Keppt verður í tveimur styrkleikaflokkum og eru liðin alla jafna ókynjaskipt. Nokkrir leikmenn koma á eigin vegum en þeim hafa verið fundnar stöður í þeim liðum sem skráð eru til leiks.

Alls leggja fleiri en 200 manns frá að minnsta kosti 20 löndum leið sína til Íslands í tengslum við mótið. Mótinu lýkur með verðlaunaafhendingu og lokahófi á hvítasunnudag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert