Innlent

Mikil ánægja með Stekkjaskóla á Selfossi

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Það var skólastjóri skólans og bæjarstjóri Árborgar, sem kipptu á borðann með aðstoð tveggja nemenda skólans við vígslu skólans í gær, 1. júní.
Það var skólastjóri skólans og bæjarstjóri Árborgar, sem kipptu á borðann með aðstoð tveggja nemenda skólans við vígslu skólans í gær, 1. júní. Magnús Hlynur Hreiðarsson

Borðaklipping fór fram á Selfossi þegar nýjasti grunnskólinn í Árborg, Stekkjaskóli var formlega vígður. Skólinn er í dag í fjögur þúsund fermetra byggingu og það er strax byrjað að byggja við hann fjögur þúsund fermetra í viðbót vegna mikillar fjölgun skólabarna á Selfossi.

Það var skólastjóri skólans og bæjarstjóri Árborgar, sem kipptu á borðann með aðstoð tveggja nemenda skólans við vígslu skólans í gær, 1. júní. Nú eru nemendur í 1. til 5. bekk í skólanum og hafa verið frá 22. mars síðastliðnum, alls um 170 nemendur og næsta skólaár verður 1.-6. bekkur. Haustið 2024 verður 1.-7. bekkur kominn í skólann og 2. áfangi vonandi tilbúinn. Nýi skólinn, sem er fjórði grunnskólinn í Árborg er allur hinn glæsilegasti.

„Stekkjaskóli er teymiskennsluskóli má segja þar, sem hver árgangur hefur sitt svæði. 30, 40 til 50 börn á svæðinu með tvo til þrjá umsjónarkennara þar sem kennarar bera sameiginlega ábyrgð á börnunum,“ segir Hilmar Björgvinsson, skólastjóri.

Og framhaldið leggst vel í þig eða hvað?

„Já, já, framhaldið leggst vel í mig. Nú erum við komin á okkar stað, nú höldum við áfram uppbyggingunni, við erum rétt að byrja.“

Hilmar Björgvinsson, skólastjóri Stekkjaskóla, sem er með um 170 nemendur og 35 starfsmenn.Magnús Hlynur Hreiðarsson

Nemendur 1. bekkjar sungu fyrir gesti við vígsluna.

Nemendur í 1. bekk sungu fyrir gesti við vígsluna.Magnús Hlynur Hreiðarsson

„Þetta er glæsileg bygging og ekki bara glæsileg, það er líka svo gott að vera hérna, góð hljóðvist og einhvern veginn tekur utan um mann. Og auðvitað er þetta bara vaxandi samfélag og þess vegna er þetta mikið ánægjuefni og gleðiefni að geta opnað þennan skóla og tekið vel á móti öllum börnunum okkar, okkar fremsta fólki,“ segir Fjóla S. Kristinsdóttir, bæjarstjóri í Árborg.

En hvað segja nemendur nýja skólans á Selfossi, hvað er skemmtilegast við Stekkjaskóla?

„Frímínútur, frímínútur, frímínútur“ sögðu nokkur þeirra í kór.

Nokkrir hressir nemendur skólans.Magnús Hlynur Hreiðarsson


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×