Handbolti

Sigurjón kom vel út úr nýrri tölfræðigreiningu HB Statz

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Sigurjón Guðmundsson varði átján skot í marki HK gegn KA í 1. umferð Olís-deildar karla.
Sigurjón Guðmundsson varði átján skot í marki HK gegn KA í 1. umferð Olís-deildar karla. vísir/vilhelm

Sigurjón Guðmundsson, markvörður HK, stimplaði sig inn í Olís-deildina með látum í leiknum gegn KA í síðustu umferð. Hann varði sérstaklega vel úr hornunum.

Ein af nýjungunum hjá HB Statz, sem heldur utan um tölfræðina í Olís-deildunum, er að hægt er að sjá hvernig markverðir verja úr hverri stöðu.

Þegar litið er á frammistöðu markvarðanna í þeim fimm leikjum sem er lokið í Olís-deild karla stendur Sigurjón upp úr þegar kemur að markvörslu úr hornum. Í leiknum gegn KA á fimmtudaginn varði hann sjö skot úr horni, eða helming þeirra skota sem hann fékk á sig. Næstur kemur Nicholas Satchwell sem varði þrjú hornaskot gegn HK (fimmtíu prósent). KA vann leikinn með þriggja marka mun, 25-28.

Sigurjón gekk einnig vel að eiga við skot fyrir utan og varði sjö skot þaðan, eða 43,8 prósent þeirra skota sem hann fékk á sig.

Satchwell og Björgvin Páll Gústavsson, Val, vörðu flest skot fyrir utan, eða átta hvor. Satchwell varði 38 prósent skota sinna fyrir utan og Björgvin Páll helminginn.

Sigurjón og Lárus Helgi Ólafsson, markvörður Fram, vörðu flest skot úr gegnumbrotum, eða tvö hvor.

Færeyski landsliðsmarkvörðurinn Nicholas Satchwell átti góðan leik í Kórnum.vísir/vilhelm

Satchwell reyndist línumönnum HK afar erfiður en hann varði fimm skot frá þeim (71,4 prósent) sem er lygileg tölfræði. Einar Baldvin Baldvinsson, Gróttu, varði fjögur skot af línu (fimmtíu prósent).

Einar Baldvin varði tvö skot úr hraðaupphlaupum líkt og Aron Rafn Eðvarðsson hjá Haukum.

Hægt er að sjá tölfræðina yfir hvernig markverðir verja úr hverri stöðu fyrir sig með því að smella á hlekkinn hér fyrir neðan.

Sigurjón fékk mikið lof fyrir frammistöðu sína í Seinni bylgjunni á föstudaginn. „Hann eiginlega bara hélt HK inni í þessum leik eins lengi og þeir voru inni í þessum leik. Hann var algjörlega frábær og svona á sama tíma var Satchwell að verja mjög lítið,“ sagði Theodór Ingi Pálmason.

„Það eru nokkur ár síðan að maður heyrði af þessum strák og hann var víst mjög góður í Grill-deildinni í fyrra. Það er bara virkilega gaman að sjá hann stimpla sig svona inn í fyrsta leik. Hann á heldur ekki langt að sækja hæfileikana.“

Theodór vísaði þar til þess að faðir Sigurjóns er Guðmundur Hrafnkelsson sem lék yfir fjögur hundruð leiki í marki íslenska landsliðsins.


Olísdeildirnar í handbolta eru á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Olísdeildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×