Einn á ísbjarnavakt

Guðmundur Fylkisson er að leysa af á Þórshöfn.
Guðmundur Fylkisson er að leysa af á Þórshöfn. Ljósmynd/Aðsend

„Starfið í lögreglunni er sennilega hvergi fjölbreyttara en í afskekktri byggð úti á landi. Hér er maður einn á vaktinni og þarf að geta sinnt öllum verkefnum sem upp koma. Verið í senn sérsveitarmaður og sálusorgari, við umferðareftirlit og að vísa fólki til vegar. Nálægðin við íbúana er mikil, samfélag þar sem undirstaðan er landbúnaður og sjávarútvegur,“ segir Guðmundur Fylkisson lögreglumaður.

Stórt varðsvæði

Um þessar mundir stendur Guðmundur vaktina sem lögreglumaður á Þórshöfn á Langanesi; á varðsvæði sem nær frá Jökulsá á Fjöllum, yfir Núpasveit, Melrakkasléttu, Þistilfjörð og suður á Sandvíkurheiði. Á þessum slóðum eru þéttbýlisstaðirnir Kópasker, Raufarhöfn og Þórshöfn, fjarlægðir miklar og byggðin gisin. Eigi að síður þurfa samfélagslegir innviðir að vera til staðar; verslun, bensínstöð, skólar, vegagerð, læknar og fleira slíkt og svo auðvitað lögregluvakt.

„Að ég kæmi til starfa hér var nánast tilviljun. Ég er frá Ísafirði, byrjaði í löggunni þar árið 1985 og var þar lengi,“ segir Guðmundur og heldur áfram: „Ég fór til starfa á höfuðborgarsvæðinu og hef verið í ýmsum hlutverkum þar, auk þess að hafa verið afleysingamaður á ýmsum stöðum: svo sem á Selfossi og Egilsstöðum. Þó ég hafi flækst víða um landið átti ég alltaf eftir að heimsækja norðausturhornið, hvað þá starfa þar. Það var svo sumarið 2017 sem ég nefndi við félaga mína í lögreglunni á Norðurlandi eystra að ef vantaði mann í afleysingar mætti hafa mig í huga. Ég var tekinn á orðinu; var kominn á svæðið fjórum dögum síðar og er núna í mínu sjötta úthaldi hér. Er þá gjarnan hér í tvær til þrjár vikur og verð það nú.“

Skaðræðisskepnur

Ísbjörn var felldur í Þistilfirði snemma árs 2010. Í ljósi þess að birnir hafa nokkrum sinnum birst á norðanverðu landinu á síðustu árum er gát höfð gagnvart því að bangsar birtist; slíkar skaðræðisskepnur þykja þeir vera og vekja ugg í allra brjósti.

„Ég segist gjarnan vera á ísbjarnavaktinni hér á Þórshöfn; í þessu stórbrotna en hrjóstruga umhverfi hér í norðrinu. Ég hef heillast af þessu svæði en þó ekki síður mannlífinu hér.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert