Meirihlutinn leggi til að kjör þingmanna verði staðfest

Birgir Ármannsson.
Birgir Ármannsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Kjörbréfanefnd hefur komið saman í fyrsta sinn eftir að nefndin tók við hlutverki sínu við setningu Alþingis fyrr í dag. Birgir Ármannsson, formaður kjörbréfanefndar og þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, segir að meirihluti nefndarinnar muni leggja til að Alþingi staðfesti kjör þeirra þingmanna sem fengu send kjörbréf 1. október. 

„Á þessum fundi var ákveðið að leggja fram og birta opinberlega greinargerðina sem undirbúningsnefnd hefur unnið að og er samantekt á starfi nefndarinnar síðustu vikur,“ segir Birgir í samtali við mbl.is og bætir við;

„Á fundinum kom fram að fulltrúi Pírata standi ekki að þessari greinargerð, en fulltrúar allra annarra flokka standa að henni í sameiningu. Hins vegar liggur fyrir að það er von á líklega fleiri en tveimur tillögum frá nefndarmönnum í kjörbréfanefnd sem koma til atkvæðagreiðslu á fimmtudaginn. Það á eftir að skýrast í störfum kjörbréfanefndar hversu margar nákvæmlega tillögurnar verða, en ég held að það sé ljóst að þær verði fleiri en ein og fleiri en tvær.“

Gallar hafi ekki haft áhrif á niðurstöðu kosninganna

Birgir segir að meirihluti kjörbréfanefndarinnar muni leggja til að Alþingi staðfesti kjör þeirra 63 þingmanna sem fengu send kjörbréf 1. október, eftir endurtalningu í Norðvesturkjördæmi. 

„Umræður í nefndinni hafa gefið til kynna að það sé skýr meirihluti í nefndinni fyrir því að leggja til að kjör þeirra sem fengu kjörbréf frá landskjörstjórn 1. október verði staðfest. Það byggir á þeirri forsendu að þrátt fyrir að gallar hafi komið fram varðandi Norðvesturkjördæmi, að þá hafi ekkert í starfi nefndarinnar komið fram sem gefi tilefni til þess að ætla að þeir gallar hafi haft áhrif á úrslit kosninganna, en lagaskilyrðið fyrir ógildingu er að galli hafi haft áhrif á úrslit kosninganna. Það er með öðrum orðum ekki nægilegt að sýna fram á galla, heldur þarf að sýna fram á orsakasamhengið,“ segir Birgir. 

Birgir segir viðbúið að einstaka þingmenn eigi eftir að leggja annað til;

„Við höfum gert ráð fyrir því að það komi líka tillaga um að ógilda kjörbréf þingmanna úr Norðvesturkjördæmi og þá jöfnunarmanna vegna framkvæmdarinnar í kjördæminu. Ég geri ráð fyrir því að slík tillaga komi fram. Það er líka fræðilega mögulegt að það komi fram fleiri sjónarmið og fleiri tillögur í nefndarálitum einstakra fulltrúa. Það er ekki ljóst á þessari stundu hversu margar tillögurnar verða endanlega,“ segir Birgir, en Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, hefur sagt að hann muni leggja til að uppkosning fari fram á landinu öllu. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert