Ekki gott fyrir sjálfstraustið að fá á sig sjö mörk

Daniel Farke var ráðalaus á hliðarlínunni í dag.
Daniel Farke var ráðalaus á hliðarlínunni í dag. AFP

Daniel Farke, knattspyrnustjóri Norwich, var ómyrkur í máli eftir tap liðsins gegn Chelsea í ensku úrvalsdeildinni á Stamford Bridge í London í dag.

Leiknum lauk með 7:0-sigri Chelsea en frammistaða Norwich í leiknum var skelfileg og sá liðið aldrei til sólar gegn spræku liði Chelsea.

„Við vissum það fyrir leikinn að þetta yrði mjög erfitt en við vorum staðráðnir í að sýna okkar allra bestu hliðar,“ sagði Farke við BT Sport.

„Við vorum hægir á boltanum og tókum rangar ákvarðanir trekk í trekk. Þess vegna töpuðum við leiknum. Leikmennirnir eru mjög vonsviknir og það er óþarfi að refsa þeim ennþá frekar.

Ég sagði leikmönnunum að taka sér tíma og jafna sig á þessu tapi. Við verðum í sárum næstu daga en svo er það bara næsti leikur sem skiptir öllu máli. 

Það er ekki gott fyrir sjálfstraustið að fá á sig sjö mörk en við höldum áfram,“ bætti Farke við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert