Við þurftum að knúsast eftir þetta

Andri Lucas Guðjohnsen skoraði fjórða markið.
Andri Lucas Guðjohnsen skoraði fjórða markið. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Andri Lucas Guðjohnsen skoraði sitt annað landsliðsmark í aðeins fjórða landsleiknum er hann gerði fjórða mark Íslands í 4:0-sigrinum á Liechtenstein í undankeppni HM í fótbolta á Laugardalsvelli í kvöld. Andri skoraði eftir stoðsendingu frá eldri bróður sínum Sveini Aroni Guðjohnsen.

„Þetta var geggjað. Það þurfti eiginlega að vera Svenni sem kom með stoðsendinguna. Þetta var gríðarlega góð sending hjá honum. Ég var stoltur af honum og hann af mér og við þurftum að knúsast eftir þetta,“ sagði Andri við RÚV um augnablikið sem bræðurnir áttu saman.

Hann er spenntur fyrir þeirri uppbyggingu sem er að eiga sér stað hjá íslenska liðinu.

„Þetta er að verða gott lið. Við leikmenn erum að tengja betur saman og við erum að byggja upp gott lið. Við erum með marga góða leikmenn og við sýndum það í kvöld. Stefán skoraði gott skallamark og Albert skoraði tvö. Auðvitað vilja allir spila og við erum á góðri leið,“ sagði Andri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert