Eftir miklar lækkanir á íslenska hlutabréfamarkaðnum í vikunni voru hlutabréf meirihluta félaga í Kauphöllinni græn í viðskiptum dagsins. Mesta veltan var með hlutabréf Marels en gengi félagsins endaði daginn í 616 krónum á hlut líkt og í gær.

Brim hækkaði mest af félögum Kauphallarinnar eða um 2,8%, þó í aðeins 33 milljóna króna viðskiptum. Gengi útgerðarfélagsins stóð í 93,5 krónum við lokun markaða, um 23% hærra en í upphafi árs.

Hlutabréfaverð Icelandair hækkaði um 1,7% í 215 milljóna veltu og náði því aðeins að rétta úr kútnum eftir að hafa fallið um 17% í mánuðinum. Gengi Icelandair var í 1,67 krónum við lokun Kauphallarinnar.

Þrjú félög á aðalmarkaðnum lækkuðu í viðskiptum dagsins. Hlutabréf Arion banka lækkuðu um 1,3% í tæplega hálfs milljarðs króna veltu í dag og hafa nú fallið um rúm 10% á einum mánuði. Hlutabréf VÍS lækkuðu einnig um 0,9% og Haga um 0,7%.