Hluthafar í samlagshlutafélaginu Arev NII krefja fyrrverandi rekstraraðila þess um 532 milljónir króna, auk vaxta, í skaðabætur vegna atvika í kringum kaupin á fatakeðjunni Duchamp. Hluti málsins var til meðferðar í héraðsdómi fyrir viku en þar var deilt um hvort meint bótakrafa væri fyrnd eður ei.

Rætur málsins má rekja um átta ár aftur í tímann en þá kynntu fulltrúar Arev verðbréfafyrirtæki hf. bresku fataverslunina Duchamp til sögunnar sem mögulegan fjárfestingakost fyrir lífeyrissjóðum. Þar væri á ferð félag með langa sögu og gott vörumerki en talsverðan lausafjárvanda. Því væri mögulegt að kaupa það ódýrt, leggja því til fé og selja með hagnaði. Varð það úr að Arev NII, sem héðan í frá verður kallað AN2 til aðgreiningar, var stofnað og keyptu ellefu lífeyrissjóðir sig inn í það.

Framkvæmdastjóri AN2 var starfsmaður Arev en að auki voru til staðar svokölluð fjárfestinga- og ráðgjafaráð, sem að hluta til voru kosin af hluthöfum, sem tempruðu vald daglegs stjórnanda. Sá hafði umboð til að skuldbinda félagið og fjárfesta fyrir þess hönd en þó var það skilyrði að slík tillaga fengist einróma samþykkt af fjárfestingaráðinu. Milli AN2 og Arev var gerður samningur sem fól meðal annars í sér eignastýringu um téða eign.

Strax árið 2015 kom í ljós að staða Duchamp var verri en gögn báru með sér þegar lagt var af stað í vegferðina. Á fundi fjárfestingaráðs haustið það ár kom fram að virði félagsins væri minna en áætlað var í upphafi og að nauðsynlegt væri að leggja því til aukið fé. Varð það úr. Leið og beið fram á næsta vor án þess að staðan vænkaðist.

Ekki fjallað um bótagrundvöllinn

Í byrjun maí 2016 fór fram fundur í fjárfestingaráðinu en sá var haldinn að beiðni fjárfestingastjóra AN2. Lá þá fyrir að tveimur dögum síðar átti félagið að kaupa hlut í Múrbúðinni en af því varð ekki. Samkvæmt fundargerð þess fundar var farið ítarlega yfir stöðu félagsins og eigendum tjáð að orsök vandans væri meðal annars sú að einn hluthafi þess, félag í eigu Jóns Scheving Thorsteinsson, stærsta eiganda Arev, hefði ekki efnt hlutafjárloforð sitt og innheimtutilraunir hefðu ekki borið árangur. Þá hefðu fjármunir sem áttu að renna til Duchamp ekki alltaf ratað rétta leið og í einhverjum tilfellum farið í að greiða skuldir félaga í eigu Jóns.

Ráðgjafaráð félagsins fundaði síðan skömmu síðar en á þann fund voru Jón og framkvæmdastjóri AN2 boðaðir. Að sögn Gunnars Sturlusonar, lögmanns félagsins í málinu, voru ekki gefnar haldbærar skýringar á stöðunni. Síðar í sama mánuði var Arctica Finance falið að meta hvort rétt væri að leggja AN2 til meira fé. Minnisblað Arctica var afdráttarlaust, ómarkvisst slökkvistarf hefði gengið svo lengi að slíkt væri ekki forsvaranlegt. Á hluthafafundi sama dag var skipt um ábyrgðaraðila samlagshlutafélagsins og honum falið að rifta samningi við Arev.

Allar götur síðan hefur legið fyrir að AN2 hefur ætlað sér að sækja bætur vegna tjóns síns en skýringu þess efnis hefur verið að finna í skýrslu stjórnar í ársreikningum félagsins. Það að taka slæmar viðskiptaákvarðanir er vissulega ekki saknæmt en að mati félagsins var maðkur í mysunni hjá gagnaðila þeirra. Dómkvaddur var matsmaður til að meta meint tjón þess og var niðurstaða hans að tjónið væri 532 milljónir króna. Var það stefnufjárhæð málsins en áður en til aðalmeðferðar kom var sakarefni þess skipt þannig að ekki yrði fjallað um bótagrundvöllinn heldur yrði aðeins fjallað um hvort meint bótakrafa væri fyrnd eður ei.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .