Norðmenn stórefla kvennafótboltann

Berglind Björg Þorvaldsdóttir og samherjar í Brann fá að njóta …
Berglind Björg Þorvaldsdóttir og samherjar í Brann fá að njóta hluta þeirrar upphæðar sem verja á til eflingar norsku kvennadeildarinnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Norska knattspyrnusambandið og Toppfotball Kvinner, samtök atvinnuliðanna í kvennaflokki, hafa lagt fram 4 milljónir norskra króna, tæpar 60 milljónir íslenskra króna, til að styrkja bestu liðin í landinu.

Það eru Brann og Rosenborg, tvö efstu liðin á síðasta tímabili sem verða fulltrúar Noregs í Meistaradeild Evrópu á næsta hausti, sem fá bróðurpart upphæðarinnar, sem og Lilleström sem endaði í þriðja sæti.

Peningunum er m.a. varið í æfingabúðir á Spáni þar sem norsku liðin leika við nokkur af bestu liðum Svíþjóðar í næsta mánuði.

Lise Klaveness, stjórnarmaður norska knattspyrnusambandsins og verðandi formaður þess, sagði við VG að þetta væri liður í því að efla norska kvennafótboltann. „Dætur okkar eiga að fá að vera með stóra drauma og við þurfum því að leggja mikið í sölurnar til að landsliðið standi sig og líka félagsliðin í Meistaradeildinni," sagði Klaveness.

Hún sagði jafnframt að það væri sameiginlegt markmið sambandsins, deildanna og félaganna að markmiðið væri að norska úrvalsdeildin væri í hópi sex sterkustu í Evrópu fyrir árið 2028.

Í dag er norska deildin í ellefta sæti í Evrópu, einu sæti á undan þeirri íslensku, en löndin sem eru með deildir í sjöunda til sextánda sæti fá tvö lið í Meistaradeildina á meðan sex sterkustu deildirnar fá að senda þrjú lið hvert.

Íslenskar landsliðskonur leika einmitt með toppliðunum tveimur en Berglind Björg Þorvaldsdóttir er gengin til liðs við Brann og Selma Sól Magnúsdóttir við Rosenborg. Þá leikur Ingibjörg Sigurðardóttir með bikarmeisturum Vålerenga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert