Í fyrra hafði hlutafé Skagans 3X verið aukið um rúmlega 1,2 milljarða króna frá því að tilkynnt var um kaup Baader á 60% hlut í félaginu.

Í ársreikningi Skagans 3X Holding segir að Baader hafi stutt fjárhagslega við samstæðuna frá því eignarhaldið fluttist alfarið yfir til þeirra og muni halda áfram að gera það í kjölfar sameiningarinnar.

„Einnig var gengið frá endurskipulagningu skulda samstæðunnar með undirritun samkomulags við stærsta viðskiptabanka félagsins í september 2022. Sú aðgerð er mjög mikilvæg fyrir rekstrarhæfi félagsins til framtíðar.“

Reksturinn þungur síðustu ár

Rekstur Skagans 3X hefur verið þungur undanfarin ár. Tap samstæðunnar nam tæpum 2,7 milljörðum króna í fyrra og 213 milljónum árið 2020, en starfsemin snýr aðallega að þróun, framleiðslu og sölu tæknibúnaðar fyrir matvælaframleiðslu. Þannig var hrein eign samstæðunnar neikvæð um 1,4 milljarða í árslok.

Velta Skagans nam 2,6 milljörðum króna í fyrra og dróst saman um milljarð á milli ára. Árið áður höfðu tekjurnar dregist saman um helming, úr 7 milljörðum króna í 3,6 milljarða.

Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins, sem kom út 1. desember.