Mæla segulsvið hveranna á Geysissvæðinu

Gos á góðri stundu. Hverjar eru raunverulegar orsakir gosa stendur …
Gos á góðri stundu. Hverjar eru raunverulegar orsakir gosa stendur nú til að rannsaka, en flóknar mælingar vísindamanna þarf til. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Kanna á upptök og eðli gosa í Strokki á Geysissvæðinu með rannsóknum sem hefjast þar í dag. Umhverfisstofnun gefur leyfi til þessa vísindastarfs, sem Gylfi Páll Hersir, jarðeðlisfræðingur hjá Íslenskum orkurannsóknum, tekur þátt í.

Undanfarin ár hefur tíðni gosa í Strokki verið könnuð með þremur jarðskjálftamælum við hverinn og í leiðinni hvort oftar en einu sinni gjósi í hverju gosi og hversu oft. Þá var myndavél sett niður eftir gospípunni til þess að skoða hana enn frekar. Þessi vinna fór fram í samvinnu við vísindafólk í Potsdam í Þýskalandi undir forystu Evu Eibl jarðfræðings.

Mælt 8-10 klst. á dag

Í verkefninu nú, sem Gylfi Páll vinnur með jarðfræðingum frá Danmörku undir forystu Léu Levý, sem lauk doktorsnámi við HÍ fyrir nokkrum árum, verður gosrás Strokks könnuð með endurteknum viðnámsmælingum. Þannig á að kanna hvort sjá megi aðfærsluæðar vatnsins að gosrásinni. Mælt verður við hverinn í 2-3 daga á 15-30 mínútna fresti.

Mælingarnar munu taka um 8-10 klst. á dag og verða á nokkrum stöðum umhverfis Strokk eftir fyrirfram ákveðnum línum. Allur tækjabúnaður verður á yfirborði. Straumi er hleypt eftir lykkju á yfirborðinu, síðan er slökkt á honum og mælt hvernig segulsviðið sem straumurinn spanar upp, dofnar. Deyfing segulsviðsins segir til um viðnám í jörð.

Spurningum verði svarað

„Með þessu viljum við meðal annars sjá hvernig viðnámið breytist samfara gosi í Strokki. Jafnframt freista þess að skilja betur hvað gerist þarna niðri. Mælingar geta vonandi svarað þessu að einhverju leyti. Með tilliti til jarð- og eðlisfræði er Geysissvæðið lítt rannsakað þótt margar spurningar séu uppi sem nú verður leitast við að svara,“ segir Gylfi Páll.

Rannsóknir Gylfa og samstarfsfólks standa í viku. Um líkt leyti verða sjónvarpsmenn frá BBC á svæðinu, sem afla efnis í þátt um Geysi. sbs@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert