Sigríður Guðmundsdóttir hefur tekið við starfi framkvæmdastjóra Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins (FA), af Sveini Aðalsteinssyni. Fræðslumiðstöðin er samstarfsvettvangur ASÍ og SA til að bæta menntun.

Sigríður hefur starfað í mannauðs- og fræðslumálum um árabil en hún starfaði áður hjá Eimskip sem fræðslu- og mannauðsstjóri félagsins en einnig sem ráðgjafi hjá Attentus – Mannauður og ráðgjöf. Sigríður hefur lokið MBA námi frá HÍ og er menntuð sem grunnskólakennari frá HA og með Dipl.Ed gráðu í Fræðslustarfi og stjórnun frá HÍ.

Fræðslumiðstöð atvinnulífsins ehf. var stofnuð í desember 2002 af Alþýðusambandi Íslands (ASÍ) og Samtökum atvinnulífsins (SA) með það að markmiði að vera vettvangur um bætta menntun og möguleika fyrir einstaklinga á vinnumarkaði með litla grunnmenntun, innflytjendur og sambærilega hópa.

Verkefni Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins eru að vera leiðandi í að greina, meta og auka hæfni í atvinnulífinu og styðja þannig við þróun starfsmanna til að afla sér menntunar eða bæta stöðu sína. Fræðslumiðstöð atvinnulífsins (FA) er samstarfsvettvangur og verkfærasmiðja í fullorðins-og starfsmenntun á íslenskum vinnumarkaði.

Hlutverk FA er að veita fólki á vinnumarkaði sem ekki hefur lokið prófi frá framhaldsskóla tækifæri til að afla sér menntunar eða bæta stöðu sína. Þessu hlutverki á FA að sinna með því að greina, meta og þróa leiðir og aðferðir til að auka hæfni á vinnumarkaði í samstarfi við atvinnulífið.

FA nýtir sér erlend tengslanet um nám fullorðinna í þróunarvinnu sinni. FA starfar á grundvelli þjónustusamnings við mennta- og menningarmálaráðuneytið um verkefni á sviði framhaldsfræðslu.