Umfjöllun og viðtöl: Breiðablik - Grindavík 103-112 | Þriðji sigur Grindvíkinga í röð

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ólafur Ólafsson var stigahæstur á vellinum með þrjátíu stig.
Ólafur Ólafsson var stigahæstur á vellinum með þrjátíu stig. vísir/hulda margrét

Grindavík vann sinn þriðja leik í röð þegar liðið sigraði Breiðablik í Subway-deild karla í Smáranum í kvöld, 103-112.

Grindavík er áfram í 6. sæti deildarinnar en nú með tuttugu stig og liðið lítur nokkuð vel út fyrir átökin í úrslitakeppninni.

Ólafur Ólafsson átti stórleik fyrir Grindavík; skoraði þrjátíu stig, tók tólf fráköst og gaf fimm stoðsendingar. Gkay Skordilis skoraði 24 stig, tók þrettán fráköst og gaf sex stoðsendingar og Damier Pitts var með 23 stig, sex fráköst og sjö stoðsendingar.

Julio Calver skoraði 23 stig fyrir Breiðablik og Everage Richardson 21. Jeremy Smith var með nítján stig og sjö stoðsendingar.

Grindvíkingar voru miklu sterkari aðilinn í 1. leikhluta og voru sautján stigum yfir eftir hann, 15-32. Blikar gáfu heldur betur í eftir það, minnkuðu muninn jafnt og þétt og lokakaflinn var spennandi. En Grindavík gaf í þegar mest á reyndi og vann á endanum níu stiga sigur, 103-112.

Á meðan Grindavík gengur allt í haginn gengur Breiðabliki allt í mót. Liðið hefur tapað sex leikjum í röð og tíu af síðustu ellefu leikjum sínum. Blikar hanga enn á 8. sætinu en óvíst er hvort stigin sextán sem þeir hafa náð í duga til að komast í úrslitakeppnina.

Breiðablik byrjaði leikinn í svæðisvörn sem Grindavík tætti auðveldlega í sig. Gestirnir létu boltann ganga vel á milli sín og fengu ítrekað opin skot. Og ef þeir hittu ekki voru þeir svo bara frekari og tóku sóknarfrákastið.

Blikar voru grútlinir í fyrri hálfleik og til marks um það fengu þeir aðeins fjórar villur í honum. Grindvíkingar, leiddir áfram af Ólafi, voru miklu ákveðnari, ágengari og betri. Staðan í hálfleik 43-56, Grindavík í vil.

Allt annað var að sjá til Breiðabliks í seinni hálfleik. Liðið minnkaði muninn jafnt og þétt og setti alltaf meiri og meiri pressu á Grindavík. Pitts stóðst hana samt, skoraði átta af síðustu tíu stigum 3. leikhluta og fyrir hans tilstuðlan var munurinn níu stig fyrir lokaleikhlutann, 79-88.

Blikar létu þetta áhlaup Pitts ekki á sig fá og gaf aftur í. Julio, sem var frábær í seinni hálfleik fyrir utan dýr vítaklikk, jafnaði í 95-95 og Danero Thomas kom heimamönnum svo yfir í fyrsta sinn frá því í stöðunni 2-0.

Julio jafnaði aftur í 98-98 en Grindavík svaraði með átta stigum í röð sem kláruðu leikinn. Ólafur og Kristófer Breki Gylfason settu niður tvo þrista og bilið var einfaldlega of breitt fyrir Breiðablik að brúa.

Danero minnkaði muninn í þrjú stig en Skordilis svaraði og jók muninn í 103-108. Grindvíkingar kláruðu svo leikinn á vítalínunni og unnu níu stiga sigur, 103-112.

Pétur: Gluggin er alveg að lokast

Pétur Ingvarsson var ekki bjartsýnin uppmáluð eftir leik.vísir/vilhelm

Pétur Ingvarsson, þjálfari Breiðabliks, var svekktur með tapið fyrir Grindavík í kvöld. Hann sagði frammistöðuna í fyrri hálfleik hafa orðið Blikum að falli.

„Fyrri hálfleikurinn var dýr yfirhöfuð. Við reyndum að spila svæðisvörn, reyndum að hrista upp í þessu og það gekk ekki,“ sagði Pétur eftir leik.

Blikar voru þrettán stigum undir í hálfleik, 43-56, en komu til baka í seinni hálfleik og voru á endanum ekki langt frá því að vinna leikinn.

„Við vorum aðeins ákveðnari í vörninni og gáfum þeim ekki eins mikið af opnum skotum og körfum við gerðum í fyrri hálfleik og þeir nýttu sér,“ sagði Pétur.

„Þeir settu svo stór skot undir lokin. Þeir skoruðu en svo fórum við í sókn og náðum ekki að skora. Þetta er svoleiðis.“

En er Pétur bjartsýnn á að Blikar haldi 8. sætinu og komist í úrslitakeppnina?

„Nei, ég held að það séu engar líkur á því,“ svaraði Pétur í óræðum dúr.

„Þetta er erfitt. Við erum búnir að tapa ansi mörgum leikjum og þegar sjálftraustið í mannskapnum er lítið getur verið erfitt að fá menn til að berjast og hafa trú. Það kemur vonandi. Glugginn er alveg að lokast.“

Jóhann: Ofboðslega sáttur með þetta og í skýjunum

Jóhann Þór Ólafsson hrósaði sínum mönnum í hástert eftir leikinn.vísir/hulda margrét

Jóhann Þór Ólafsson, þjálfari Grindavíkur, var í skýjunum eftir sigurinn á Breiðabliki í Smáranum í kvöld.

„Ég er vægast sagt mjög ánægður með mitt lið í kvöld og frammistöðuna og hvernig við héldum út. Þetta var geggjað,“ sagði Jóhann eftir leik.

„Þeir spiluðu svæðisvörn í fyrri hálfleik og tóku sénsa. Það er auðvelt að vera litlir í sér og hafa ekki trú á því sem þú ert að gera en það var heldur betur kveikt á okkur og frammistaðan í fyrri hálfleik skóp þennan sigur.“

Eins og Jóhann sagði spiluðu Blikar svæðisvörn í upphafi leiks. Það leystu Grindvíkingar vel.

„Þeir komu okkur á óvart með svæðisvörninni en mínir menn komu mér ennþá meira á óvart með hvernig þeir leystu úr því. Við vorum ekki búnir að fara yfir þetta eða neitt. Við svínhittum og vörnin var góð. Það var kraftur og elja í okkur og ég er ofboðslega sáttur með þetta og í skýjunum,“ sagði Jóhann.

Grindvíkingar þurftu að sýna þrautseigju í 4. leikhluta þegar Blikar þjörmuðu verulega að þeim.

„Við stóðumst áhlaupið og settum stórar körfur þegar þess þurfti. Þetta var flottur sigur og mjög mikilvægur í þessari baráttu sem við erum í. Eins og úrslitin voru í gær er þetta allt að spilast fyrir okkur. Ég er mjög sáttur,“ sagði Jóhann að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira