Er vilji og geðþótti KSÍ yfir reglurnar hafinn?

Aga- og úr­sk­urðar­nefnd KSÍ vísaði frá kær­um Fram og KR …
Aga- og úr­sk­urðar­nefnd KSÍ vísaði frá kær­um Fram og KR um þá ákvörðun stjórn­ar KSÍ að hætta keppni á Íslands­mót­inu 2020. Fé­lög­in hafa nú þrjá daga til að áfrýja úr­sk­urðinum til áfrýj­un­ar­dóm­stóls sam­bands­ins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þann 30. október síðastliðinn tók stjórn Knattspyrnusambands Íslands þá ákvörðun að hætta keppni í Íslandsmótum og bikarkeppni sambandsins jafnvel þótt töluvert af leikjum ætti eftir að spila. Ákvörðunin var í samræmi við bráðabirgðareglugerð sem stjórnin hafði sett sér vegna heimsfaraldurs kórónuveirunnar.

Íslensk yfirvöld höfðu skömmu áður kynnt hertar sóttvarnaaðgerðir í baráttunni við veiruna og í framhaldinu tók stjórn KSÍ hina „þungbæru en nauðsynlegu ákvörðun,“ eins og Guðni Bergsson, formaður sambandsins, sagði frá í samtali við mbl.is. Íslandsmótinu var aflýst með þeim hætti að meðalfjöldi stiga hvers liðs fyrir sig í hverjum leik réð endanlegri niðurstöðu. Bikarkeppninni var einfaldlega hætt, þótt aðeins ætti eftir að spila samtals sex leiki hjá konum og körlum, og því engir bikarmeistarar krýndir þetta árið.

Ákvörðunin var auðvitað ekki öllum að skapi, enda enn til mikils að keppa fyrir mörg lið. Krýndir Íslandsmeistarar höfðu vissulega nokkuð afgerandi forystur í báðum deildum, þótt eflaust hefðu flestir frekar viljað vinna til afreka inni á knattspyrnuvellinum sjálfum. Annað var þó langt frá því að vera afgerandi. KR varð af sæti í Evrópukeppni karla fyrir þær sakir einar að liðið átti leik til góða. Í fyrstu deildinni misstu Framarar af sæti í úrvalsdeild á markatölu og bæði liðin sem féllu úr deildinni, Magni og Leiknir úr Fáskrúðsfirði, gerðu það sömuleiðis á markatölu. Í tilfelli Magnamanna munaði ekki nema einu marki. Auðvitað hefðu örlög þessara liða hæglega getað orðið akkúrat þau sömu, hefði verið leikið til þrauta. En er það ekki einmitt tilgangurinn? Ekki að þessu sinni, er stjórn KSÍ taldi algera nauðsyn að hætta keppni.

Hví lá svona mikið á?

Auðvitað var stjórn KSÍ vandi á höndum, enda aðstæður í samfélaginu erfiðar. En hin knýjandi nauðsyn reyndist þó vera sjálfsköpuð. Í 4.4. gr. í kórónuveirureglugerðinni segir að öllum leikjum Íslandsmótsins skuli lokið eigi síðar en 1. desember 2020. Aldrei hafa fengist nein svör um hvers vegna fullveldisdagurinn varð fyrir valinu en þó er ekki óeðlilegt að menn spyrji. Á Íslandi er eitt lengsta undirbúningstímabil í heiminum. Íslandsmótið hefst í apríl á hefðbundnu ári og því lýkur í september. Eftir standa sex mánuðir á landi þar sem finna má innanhússknattspyrnuhallir í hverjum landsfjórðungi.

Fram­ar­ar voru í þriðja sæti 1. deild­ar­inn­ar, Lengju­deild­ar­inn­ar, á markatölu …
Fram­ar­ar voru í þriðja sæti 1. deild­ar­inn­ar, Lengju­deild­ar­inn­ar, á markatölu þegar ákveðið var að hætta keppni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Það er súrt að hugsa til þess að, ef ástandið í samfélaginu skánar á næstu misserum og aðstæður leyfa að knattspyrnan hefjist aftur, þá geta æfingamótin í Egilshöllinni farið fram óáreitt í vetur á meðan Íslandsmótið sjálft var útkljáð eftir vilja og geðþótta stjórnarmanna knattspyrnusambandsins, en ekki í anda íþróttarinnar sjálfrar eða samkvæmt lögum sambandsins. Í Laugardalnum hafa menn víst talið að stundum brjóti nauðsyn lög.

Ákvörðun stjórnar KSÍ var snarlega kærð til aga- og úrskurðarnefndar sambandsins af tveimur félögum, KR og Fram. Vesturbæingar töldu að stjórn KSÍ hefði einfaldlega verið óheimilt að setja bráðabirgðareglugerðina þar sem hún færi gegn lögum sambandsins. Framarar kærðu þá ákvörðun stjórnar KSÍ að veita Leiknismönnum úrvalsdeildarsæti á sinn kostnað en liðin voru jöfn að stigum þegar keppni var hætt. Leiknir fór upp um deild á markatölu en Safamýrarliðið byggði mál sitt á því að sú ákvörðun ætti sér ekki stoð í bráðabirgðareglugerðinni sem mældi aðeins fyrir um að meðaltal stiga myndi ráða úrslitum.

Það er ekki óeðlilegt að félögin hafi ákveðið að leita réttar síns þótt eflaust þyki einhverjum hér á ferðinni vera vælukjóar sem þola illa að tapa. Það er kannski ekki heldur óeðlilegt að aðrir, sem sigldu lygnan sjó og höfðu að engu að keppa eða jafnvel högnuðust á niðurstöðunni, sitji þegjandi og hljóðalausir. Það verður þó ekki annað ráðið af kröfum KR og Fram en að ýmsir annmarkar væru á framkvæmd KSÍ í málinu öllu.

Hroðvirknisleg vinnubrögð

Stjórn KSÍ starfar jú á grundvelli knattspyrnulaga sem samþykkt eru á ársþingi sambandsins. Til að gera breytingar á lögum þessum þarf aðkomu aðildarfélaga sambandsins og kjósa þarf um þær. Í lögunum er sagt til um hvernig knattspyrnumót sambandsins eigi að fara fram. Í gr. 33.4. segir að í landsdeildum skuli leika tvöfalda umferð; hvert lið leikur tvo leiki gegn hverju hinna liðanna, heima og heiman. Þá segir í 33.5. gr. að öll mót skuli fara fram samkvæmt þessum sömu lögum sem og reglugerð KSÍ um knattspyrnumót.

Ef þessari bráðabirgðareglugerð var yfirhöfuð ætlað að taka við hlutverki þessara laga, hvort sem lagastoð fyrir því var til staðar eða ekki, af hverju var hún þá ekki vandaðri en raun ber vitni? Af hverju er ekki mælt fyrir, með nánari hætti, um hvernig endanlegri niðurröðun liða skal háttað ef ekki er unnt að ljúka keppni? Stjórn KSÍ var í lófa lagið að semja þessa reglugerð með þeim hætti að vilji hennar væri skýr og auðlesinn. Hroðvirknisleg vinnubrögð um ekki minni hagsmuni en allt Íslandsmótið í knattspyrnu búa til tortryggni, jafnvel þótt slíkur ásetningur hafi ekki verið til staðar.

Þróttur úr Reykjavík hélt sér uppi á markatölunni -24. Magni …
Þróttur úr Reykjavík hélt sér uppi á markatölunni -24. Magni úr Grenivík féll með markatöluna -25. mbl.is/Arnþór Birkisson

Aga- og úrskurðarnefnd KSÍ kom saman í morgun og vísaði frá málum KR og Fram. Þótt langflestir hafi væntanlega gert ráð fyrir þeirri niðurstöðu óskaði ég þess engu að síður að málin myndu fá efnislega umfjöllun og niðurstöðu. Ekki rættist sú ósk, svo vægt sé til orða tekið.

Í niðurstöðum nefndarinnar segir meðal annars að „ekki er gert ráð fyrir að ákvarðanir sem teknar eru af KSÍ eða í þessu tilfelli stjórn KSÍ sæti kæru til aga- og úrskurðarnefndar nema sérstök heimild liggi til þess í lögum eða reglugerðum KSÍ.“

Í greinargerðum KSÍ í kærumálunum er vísað til 44. gr. laga sambandsins. Þar segir: „Stjórn KSÍ hefur lokaákvörðun um öll þau málefni varðandi knattspyrnuna innan vébanda ÍSÍ, sem lög þessi eða reglugerðir KSÍ ná ekki sérstaklega til eða þegar meiri háttar utanaðkomandi atburðir krefjast þess.“ Það er hlutverk og á ábyrgð stjórnar KSÍ að taka ákvörðun um hvernig bregðast skuli við utanaðkomandi atburðum, það er bara ekki á hennar ábyrgð að svara fyrir það.

Nú hafa félögin þrjá daga til að áfrýja málinu til áfrýjunardómstóls KSÍ og hafa herskáir KR-ingar strax tilkynnt að þeir ætli með málið lengra. Lagasetning KSÍ virðist þó hafa skotið KR-ingum og Frömurum ref fyrir rass.

Efnisleg umfjöllun nauðsynleg

Í 3.3. gr. reglugerðar KSÍ um aga- og úrskurðarmál eru tilgreindir þeir aðilar, með tæmandi hætti, sem nefndin getur yfirhöfuð beitt viðurlögum fyrir brot á lögum KSÍ. Stjórn KSÍ er ekki í þeirri upptalningu. Svipaða reglu virðist að finna í 3.2. gr. reglugerðar KSÍ um áfrýjunardómstól sambandsins.

Á heimasíðu KSÍ má sjá lista yfir þá þrjá dómara og fimm varadómara sem skipa áfrýjunardómstólinn. Fari mál KR og Fram fyrir dómstólinn ákveður dómsformaður hverjir þrír fari með málið en einhverjir þeirra gætu eðli málsins samkvæmt verið vanhæfir vegna tengsla við félögin sem um ræðir. Til þess eru hæfisreglur en í lögum KSÍ er meðal annars kveðið á um að farið skuli eftir hæfisreglum stjórnsýslulaga við skipanir í nefndir og dómstóla sambandsins. Ekki verður deilt um mikilvægi slíkra reglna, ekki síst innan sérsambanda í íþróttahreyfingunni, enda er þeim ætlað að fyrirbyggja hagsmunaárekstur.

Það virðist því renna stoð undir það sjónarmið að stjórn KSÍ geti ekki verið varnaraðili í málum dómsins þegar 4.5. gr. er skoðuð. Segir þar að stjórnin skuli skipa dómara í dómstólinn til meðferðar einstaks máls ef tilskilinn fjöldi næst ekki úr kjörnum dómurum og varadómurum vegna vanhæfis. Það samræmist varla hæfisreglum stjórnsýslulaga, nú eða bara grundvallarreglum lýðræðis, að málsaðili fái einhverju um það ráðið hverjir dæmi í málum hans.

Guðni Bergsson, formaður KSÍ, á ársþingi sambandsins á síðasta ári. …
Guðni Bergsson, formaður KSÍ, á ársþingi sambandsins á síðasta ári. KR-ingar telja hann og aðra stjórnarmenn hafa verið vanhæfa til að taka ákvörðunina um að hætta keppni. mbl.is/Hari

Öll umfjöllun um hæfisreglur í lögum KSÍ er þó hugsanlega ekkert annað en dauður bókstafur. Meginþorri stjórnarmanna KSÍ hafði ríka hagsmuni af ákvörðuninni 30. október vegna fyrrverandi tengsla við þau félög sem högnuðustu af niðurstöðunni. Hefði ekki verið eðlilegt að þessir aðilar hefðu lýst sig vanhæfa á þeim fundi sem ákvörðunin var tekin á? Þessum sömu aðilum yrði væntanlega fengið að skipa nýja dómara við áfrýjunardómstólinn, færi svo að þeir sem þar sitja nú þegar gætu ekki tekið málið til meðferðar vegna vanhæfis.

Þessum spurningum verður auðvitað ekki svarað ef áfrýjunardómstóllinn fer einfaldlega sömu leið og aga- og úrskurðarnefndin. Þá verður niðurstaðan ekki sú að stjórn KSÍ starfi á grundvelli knattspyrnulaga og að hún beri ábyrgð á gjörðum sínum eins og eðlilegt væri en slík niðurstaða væri einmitt það sem knattspyrnuhreyfingin þarf á þessum tímapunkti. Við þurfum efnislega umfjöllun um þetta mál, hver svo sem niðurstaðan verður. Aðeins þá verður hægt að grafa stríðsöxina og líta fram á vegin.

Ef dómstóllinn kemst aftur að móti að þeirri niðurstöðu að ekki sé hægt að endurskoða ákvarðanir stjórnar þá er staðan einfaldlega sú að stjórn KSÍ er hafin yfir leikreglurnar og knattspyrnuhreyfingin skal lúta vilja hennar og geðþótta.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert