Erlent

Eiga tvær heilbrigðar dætur eftir að hafa ættleitt áratugagamla fósturvísa

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Molly Gibson kom í heiminn í október sl. eftir að hafa verið... ja, frosin í 27 ár.
Molly Gibson kom í heiminn í október sl. eftir að hafa verið... ja, frosin í 27 ár. CNN

Molly og Emma eru heilbrigðar, yndislegar dætur Tinu og Ben Gibson. Molly fæddist í október sl. en Emma í nóvember 2017. Og hvað er svona merkilegt við það? Jú, báðar komu í heiminn eftir að Tina og Ben ættleiddu fósturvísa sem höfðu verið frosnir í 24 ár í tilviki Emmu og 27 ár í tilviki Molly.

Um er að ræða met, sem var fyrst sett með fæðingu Emmu árið 2017 og svo aftur með fæðingu Molly í október. Ekki að það skipti fjölskylduna nokkru máli, Tina og Ben eru bara himinlifandi að eiga tvær dásamlegar dætur eftir að hafa glímt við ófrjósemi.

Fósturvísarnir voru geymdir hjá National Embryo Donation Center í Knoxville, sem rekin er af trúarlegum samtökum og varðveitir frosna fósturvísa sem foreldrar hafa ákveðið að nota ekki.

Fjölskyldum býðst að ættleiða fósturvísana en þegar Tina og Ben ákváðu að fara þessa leið óttuðust þau fyrst að aldur þeirra myndi hafa áhrif á möguleikana á þungun.

Það var aldeilis ekki.

Dr. James Keenan, forseti NEDC og framkvæmdastjóri lækninga, segir fæðingar Molly og Emmu sönnun þess að engin ástæða sé til að farga fósturvísum vegna aldurs. 

Um 75% allra fósturvísa sem eru þíddir reynast heilbrigðir og 25 til 30% uppsetninga heppnast, samkvæmt NEDC.

Þeirri spurningu er hins vegar ósvarað hvort og þá hvernig aldur fósturvísa spilar inn í hvort uppsetning leiðir til fæðingar heilbrigðs barns.

CNN sagði frá.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×