Réttu upp hendur og kölluðu eftir að kerfið bilaði

Katrín rétti upp hönd um leið og Steingrímur kallaði eftir …
Katrín rétti upp hönd um leið og Steingrímur kallaði eftir atkvæðum. Skjáskot/Alþingi

Fresta þurfti fundi Alþingis, sem hófst upp úr klukkan 13, eftir að í ljós kom að atkvæðagreiðslukerfi þingsins var bilað.

Steingrímur J. Sigfússon forseti Alþingis hóf fundinn á að benda á að of skammt væri liðið frá útbýtingu breytingartillagna í tveimur málum. Því þyrfti að leita samþykkis þingmanna um hvort hægt væri að taka þær á dagskrá.

„Fer nú fram atkvæðagreiðsla um þau afbrigði,“ sagði Steingrímur og tók síðan til við að styðja ítrekað á takka í stóli forseta sem setur atkvæðagreiðslu af stað.

„Augnablik, augnablik,“ sagði hann á meðan.

Þingmenn réttu upp hönd

Hann fékk síðan þau skilaboð frá starfsmanni að kerfið væri í einhverjum lamasessi, eins og hann komst sjálfur að orði.

„Þannig að forseti ætlar að grípa til þess gamla góða ráðs, að biðja þá að gefa merki og rétta upp hönd sem samþykkja afbrigðin við tillögunum.“

Í útsendingu Alþingis mátti aðeins sjá Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra ásamt Steingrími, og réttu þau bæði upp hönd. 

„Hvaða afbrigði?“ heyrðist svo kallað úr salnum við hlátur.

Kallaði og sagðist ekki greiða atkvæði

Enginn rétti upp hönd til að greiða atkvæði gegn samþykkinu, og einn kallaði fram og sagðist ekki myndu greiða atkvæði.

„Afbrigðin eru samþykkt með yfirgnæfandi þorra atkvæða viðstaddra, en einn greiðir ekki atkvæði,“ kvað forseti upp.

Að því loknu frestaði Steingrímur fundinum þar sem hann taldi það ekki góðan kost að halda áfram.

„Því forseti sér ekki alla þingmenn og jafnvel þó að gamla góða aðferðin sé fullgild þá tæki hún tíma við þessar aðstæður.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka