Iniesta yfirgefur Japan

Andrés Iniesta í leik með Vissel Kobe.
Andrés Iniesta í leik með Vissel Kobe. AFP

Spænski miðjumaðurinn Andrés Iniesta hefur tilkynnt að dvöl hans hjá japanska knattspyrnufélaginu Vissel Kobe sé á enda.

Iniesta gekk til liðs við Vissel Kobe fyrir fimm árum síðan eftir ótrúlegan feril hjá Barcelona og með spænska landsliðinu.

Þrátt fyrir að vera orðinn 39 ára gamall hyggst Iniesta ekki leggja skóna á hilluna. Á blaðamannafundi í morgun var hann spurður hvert förinni væri heitið nú þegar fimm ára dvöl í Japan er á enda.

„Ég verð að segja ykkur sannleikann, ég veit það ekki. Ég vil halda áfram að spila fótbolta. Mér finnst sem ég sé enn þá fær um að spila.

En þar sem þessum kafla lýkur skulum við sjá hvað er mögulegt. Ég vil ljúka ferlinum mínum spilandi á vellinum. Ég vonast til þess að geta gert það.

Þetta er afar tilfinningaríkur dagur eftir svona mörg ár. Ég reyndi að gera mitt besta innan og utan vallar. Ég er mjög stoltur af því,“ sagði Iniesta.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert