Erlent

Transkona sem var rekin úr hernum fannst látin á heimili sínu

Samúel Karl Ólason skrifar
Byun hee-soo var 23 ára gömul. Hér má sjá hana á blaðamananfundi í fyrra þar sem hún bað um að fá að vera áfram í hernum.
Byun hee-soo var 23 ára gömul. Hér má sjá hana á blaðamananfundi í fyrra þar sem hún bað um að fá að vera áfram í hernum. AP/Ahn Young-joon

Ung kona sem vikið var úr her Suður-Kóreu eftir að hún gekkst undir kynleiðréttingu fannst látin á heimili sínu í gær. Byun hee-soo var rekin úr hernum í fyrra.

Byun hee-soo var liðþjálfi í her Suður-Kóreu en gekk til liðs við herinn sem karl. Eftir kynleiðréttinguna árið 2019 var henni vikið úr hernum, þrátt fyrir að hún grátbað um að fá að halda þjónustu sinni áfram.

Suður-Kórea þykir einstaklega íhaldssamt ríki varðandi málefni kynhneigðar, kynvitundar og réttindi LGBT fólks.

Transfólk má ekki ganga til liðs við her Suður-Kóreu en þetta var í fyrsta sinn sem starfandi hermaður gekkst undir kynleiðréttingu. Mannréttindasamtök gagnrýndu ákvörðunin harðlega en konur mega þjóna í her landsins.

Í frétt Yonhap fréttaveitunnar segir að Byun hafi reynt að svipta sig lífi fyrir um þremur mánuðum síðan. Geðheilbrigðisráðgjafi hennar hringdi í neyðarlínuna þar í landi í gær og sagðist ekki hafa náð sambandi við hana í nokkra daga.

Slökkviliðsmenn komu svo í kjölfarið að líki hennar.

Yonhap segir Byun ekki hafa skilið eftir skilaboð og að dauði hennar sé til rannsóknar hjá lögreglu.

Fólk með sjálfsvígshugsanir er minnt á Hjálparsíma Rauða krossins, 1717, og netspjallið. Þjálfaðir og reynslumiklir sjálfboðaliðar á öllum aldri svara þeim símtölum og spjöllum sem berast. Fullum trúnaði er heitið. Nánari upplýsingar hér. Síminn hjá Pieta-samtökunum er jafnframt opinn allan sólarhringinn og er 552-2218 og vefsíðan www.pieta.is.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×