Lagði upp sigurmark New York sem er komið í úrslit

Guðmundur Þórarinsson og félagar eru komnir í úrslitaleik MLS-deildarinnar.
Guðmundur Þórarinsson og félagar eru komnir í úrslitaleik MLS-deildarinnar. Ljósmynd/New York City

Guðmundur Þórarinsson kom inn á sem varamaður og lagði upp sigurmark New York City undir lok leiks þegar liðið vann 2:1 sigur á Philadelphia Union í úrslitaleik Austurdeildar bandarísku MLS-deildarinnar í knattspyrnu karla í kvöld.

Guðmundur kom inn á í stöðunni 0:0 á 58. mínútu en skömmu síðar hófst fjörið.

Philadelphia náði forystunni þegar Alexander Callens varð fyrir því óláni að setja boltann í eigið net á 63. mínútu.

Maxi Moralez jafnaði hins vegar metin fyrir New York aðeins tveimur mínútum síðar.

Guðmundur lagði svo upp sigurmarkið fyrir Talles Magno, sem hafði komið inn á sem varamaður á sama tíma og Selfyssingurinn, á 88. mínútu.

New York náði að halda út og sigra úrslitakeppni Austurdeildarinnar.

Um næstu helgi mætir liðið því Portland Timbers, sigurvegurunum úr úrslitakeppni Vesturdeildarinnar, í úrslitaleik um bandaríska meistaratitilinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert