Fékk sex mánaða dóm að sér fjarstöddum

Héraðsdómur Reykjaness.
Héraðsdómur Reykjaness. mbl.is/Ómar Óskarsson

Héraðsdómur Reykjaness hefur dæmt dæmt spænskan karlmann í hálfs árs fangelsi, að honum fjarstöddum, fyrir innflutning á 436 grömmum af kókaíni hingað til lands með flugi frá Frakklandi í júlí á þessu ári.

Í dóminum kemur fram að kókaínið hafi verið með 19-28% styrkleika. Faldi maðurinn efnin innvortis í 51 hylki.

Í dóminum kemur fram að ekki hafi tekist að birta manninum fyrirkall vegna málsins í september. Var því gefið út fyrirkall í Lögbirtingablaðinu í október, en maðurinn mætti ekki við þingfestingu málsins.

Þóttu gögn málsins nægjanleg til sakfellingar og var málið því lagt í dóm þrátt fyrir útvist mannsins. Tekið er fram að hann hafi aðeins komið að flutningi efnanna, en ekki að skipulagningu eða fjármögnun innflutningsins.

Frá fangelsisdóminum er dreginn rúmlega eins mánaðar gæsluvarðhald sem hann sat í í sumar. Auk refsingarinnar er manninum gert að greiða tæplega 900 þúsund krónur í kostnað verjanda síns og 800 þúsund krónur í annan sakarkostnað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert