Flug án áfangastaðar

Farþegaflugvélin sem fór jómfrúarferðina „hvergi“.
Farþegaflugvélin sem fór jómfrúarferðina „hvergi“. AFP

Lággjaldaflugfélagið HK Express hefur ákveðið að bjóða farþegum sínum upp á flug sem fara „hvergi“. Flugfélagið, sem starfrækt er í Hong Kong, kynnti þetta í dag með jómfrúarferð yfir borgina.

Eins og með allan ferðaiðnað hefur eftirspurn eftir flugi nánast horfið í veirufaraldrinum. HK Express hefur því tekið til sinna ráða og bjóða nú upp á flugferðir sem byrja og enda á sama flugvelli, í þeim tilgangi að koma einhverju fjármagni inn í félagið.

„Það er hægt að líta á þetta sem upphitun fyrir hið nýja norm,“ segir Iris Ho, fjölmiðlafulltrúi HK Express í samtali við AFP-fréttaveituna. Flugfélagið býður upp á þrjú flug af þessu tagi í nóvember, og kostar farið 388 Hong Kong-dollara, sem nemur rétt tæplega 7.000 krónum á núvirði. Nú þegar hafa allir miðar í þau flug selst upp.

Hong Kong að kvöldi til.
Hong Kong að kvöldi til. AFP

Umhverfissinnar hafa þó áhyggjur af kolefnislosun þessara flugferða. Tom Ng, félagi í Hong Kong-deild umhverfisverndarsamtakanna Greenpeace gagnrýnir flugin og segir þau „óþarfa auglýsingaherferð sem skaðar umhverfið“.

„Eini tilgangur þessara flugferða er orkusóun. Þau eru í algjörri andstöðu við umhverfisverndarstefnur,“ segir hann, og hvetur flugfélagið til að hætta við þau flug sem sem áætlað er að fari í næsta mánuði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert