Við opnun markaða á mánudag færðist íslenski hlutabréfamarkaðurinn upp um gæðaflokk hjá vísitölufyrirtækinu FTSE Russell í flokk nýmarkaðsríkja (e. secondary emerging markets) en áður var markaðurinn í flokki vaxtarmarkaða (e. frontier market) frá því í september árið 2019. Íslensk félög verða tekin inn í vísitölu FTSE fyrir nýmarkaði í þremur skrefum. Það fyrsta var tekið á mánudag, þriðjungur af væginu verður svo tekið inn í desember og lokaþriðjungurinn í mars á næsta ári.

Magnús Harðarson, forstjóri Kauphallarinnar, segir endurflokkun íslenska markaðarins vera mikla viðurkenningu. Hún leiði af sér innflæði erlends fjármagns inn á íslenska hlutabréfamarkaðinn sem styrki íslenskan hlutabréfamarkað sem skráningar- og fjármögnunarvettvang, þar sem fleiri verði tilbúnir til að kaupa bréf í íslenskum fyrirtækjum. Áhyggjur yfir því að íslenski gjaldeyrismarkaðurinn sé ekki nógu djúpur hafi leitt til þess að ákveðið var að inntakan í vísitöluna færi fram í þremur skrefum.

„Það eru fordæmi fyrir því að markaðir séu teknir inn í vísitölur í skrefum. Það voru töluverðar umræður um útfærsluna en á endanum var ákveðið, með ákveðin öryggismörk í huga, að taka þessi þrjú skref. Það hefði mögulega verið hægt að taka tvö skref eða jafnvel eitt ef gjaldeyrisforði Seðlabankans hefði verið notaður. En ef gjaldeyrismarkaðurinn átti að höndla þetta, sem Seðlabankinn vildi og við í Kauphöllinni að sjálfsögðu einnig, þótti skynsamlegast að gera þetta í skrefum til að hafa borð fyrir báru. Það var heldur enginn vilji fyrir því hjá FTSE Russell að raska með einhverjum hætti stöðugleika á gjaldeyrismarkaði.“

Erlendir fjárfestar seldu bréfin

Síðasta föstudag nam heildarvelta viðskipta á hlutabréfamarkaði nærri 19 milljörðum króna. Vísitölusjóðir, sem fylgja vísitölu FTSE Russell í fjárfestingum, stóðu að miklu leyti undir þeirri veltu. Reiknar þú með að fjármagn vísitölusjóðanna flæði hratt inn á markaðinn í næstu skrefum, eða hvort það muni dreifast með jafnara bili yfir lengra tímabil?

„Það sem gerðist í aðdraganda fyrsta skrefsins var að það kom talsvert innflæði að utan frá öðrum erlendum fjárfestum. Talið er að umfang innflæðisins hafi a.m.k. verið af svipaðri stærðargráðu og reiknað hafði verið með að vísitölusjóðirnir kæmu með inn á markaðinn. Þar virðast meðal annars hafa verið á ferðinni fjárfestar sem ætluðu að selja vísitölusjóðunum bréfin sín þegar þeir kæmu inn. Það virðist svo hafa gerst á föstudaginn að erlendir aðilar hafi selt erlendu vísitölusjóðunum bréf að töluverðu marki. Svo að þótt vísitölusjóðirnir hafi komið að stórum hluta fyrst inn á föstudaginn hefur í raun þetta nettó fjármagnsinnflæði, sem tengist þessari hækkun á flokkun FTSE Russell, verið að koma inn smátt og smátt undanfarna mánuði í gegnum aðra erlenda fjárfesta,“ segir Magnús og bætir við:

„Ég tel þetta að mörgu leyti gott þar sem þetta kemur í veg fyrir að það komi högg á gjaldeyrismarkaðinn við innkomu vísitölusjóðanna. Þeir leggja mikið upp úr því að koma inn á þessum eina tímapunkti. Að sama skapi gerir þetta að verkum að seljanleiki verði til staðar þegar vísitölusjóðirnir koma inn. Í grundvallaratriðum tel ég þessa þróun því jákvæða.“

Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.