SR hafði betur í framlengdum spennutrylli

Falur Guðnason (nr. 21) skoraði eitt marka Fjölnis í kvöld.
Falur Guðnason (nr. 21) skoraði eitt marka Fjölnis í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

Skautafélag Reykjavíkur hafði betur gegn Fjölni, 7:6, í mögnuðum, framlengdum leik í úrvalsdeild karla í íshokkíi í Egilshöll í kvöld.

Fjölnir hóf leikinn betur og leiddi með tveimur mörkum, 4:2, að lokinni fyrstu lotu.

Fjölnir hóf aðra lotu af miklum krafti og komst í 6:2. SR gafst þó ekki upp og minnkaði muninn niður í eitt mark, 6:5, áður en lotan var úti.

Í þriðju lotu tókst SR að jafna metin í 6:6 og knýja þannig fram framlengingu.

Í henni skoraði SR eina markið og magnaður endurkomusigur því niðurstaðan.

Sölvi Atlason skoraði tvö mörk fyrir SR og það gerði Axel Orongan sömuleiðis. Þorgils Eggertsson, Ómar Söndruson og Styrmir Maack komust einnig á blað.

Falur Guðnason, Martin Simanek, Emil Alengaard, Hektor Hrólfsson, Róbert Pálsson og Hilmar Sverrisson skoruðu mörk Fjölnis.

Eftir sigurinn er SR áfram í öðru sæti deildarinnar, nú með 16 stig en Fjölnir rekur lestina í þriðja sæti með fimm stig. Skautafélag Akureyrar er með 27 stig á toppnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert