Skoraði á þriðja heimsmeistaramótinu í röð

Ivan Perisic fagnar jöfnunarmarki sínu fyrir Króata gegn Japan í …
Ivan Perisic fagnar jöfnunarmarki sínu fyrir Króata gegn Japan í dag. AFP/Ozan Kose

Króatinn Ivan Perisic er búinn að skora sitt fyrsta mark á þessu heimsmeistaramóti í knattspyrnu og hefur nú skorað á þremur mótum í röð.

Perisic skoraði fyrir Króata gegn bæði Kamerún og Mexíkó á HM í Brasilíu árið 2014. Hann skoraði síðan þrjú mörk á HM í Rússlandi, gegn Íslandi, Englandi og í úrslitaleiknum gegn Frakklandi.

Í dag jafnaði hann metin fyrir Króata gegn Japan, 1:1, á 56. mínútu í leik liðanna sem nú stendur yfir í Katar.

Perisic hefur nú skorað 33 mörk í 120 landsleikjum fyrir Króatíu. Þá er hann búinn að jafna Mario Mandzukic í öðru til þriðja sætinu yfir markahæstu menn í sögu landsliðsins. Markametið á Davor Suker sem skoraði 45 mörk fyrir Króata frá 1991 til 2002.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert