Gert að mæta í skólann klukkan 5.30 til að „auka aga“

Ljósmynd/Unsplash/Annie Spratt

Umdeild tilraun í Indónesíu þar sem ungmennum er gert að mæta í skólann klukkan 5.30 hefur vakið mikla reiði. Foreldrar segja að börn þeirra séu þreytt þegar þau snúa heim eftir að hafa vaknað fyrir dögun. 

Skólar í Indónesíu byrja vanalega á milli klukkan 7 og 8 á morgnana. Hins vegar eru ungmenni í tíu mismunandi skólum hluti af tilrauninni og eru því mætt klukkan 5.30 í skólann. Það var stjórnmálamaðurinn Viktor Laiskodat sem kynnti þessa tilraun sem á að „auka aga“ barnanna. 

Foreldrar ósáttir og sérfræðingar áhyggjufullur

„Þetta er mjög erfitt. Þau þurfa núna að fara að heiman á meðan það er enn niðamyrkur. Ég get ekki sætt mig við þetta... öryggi þeirra er ekki tryggt þegar það er dimmt og hljóðlátt,“ segir Rambu Ata, móðir 16 ára nemanda í samtali við AFP. 

Dóttir Ata þarf að fara á fætur klukkan 4.30 og fara með mótorhjóli í skólann til að mæta á réttum tíma. „Núna, í hvert skipti sem hún kemur heim, er hún örmagna og sofnar strax vegna þess að hún er svo syfjuð,“ bætti Ata við. 

Sérfræðingar telja tilraunina geta valdið meira tjóni en gagni. Þá geti svefnskortur haft neikvæð áhrif á heilsu og hegðun ungmennanna.

„Þau munu aðeins sofa í nokkrar klukkustundir og þetta getur haft alvarlegar afleiðingar fyrir heilsu þeirra. Þetta mun líka valda þeim streitu,“ segir Marsel Robot, sérfræðingur í menntamálum, við AFP.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert