FH, HK og Tindastóll með fullt hús – Fylkir enn án stiga

FH-konur byrja 1. deildina vel og hafa unnið tvo fyrstu …
FH-konur byrja 1. deildina vel og hafa unnið tvo fyrstu leiki sína. mbl.is/Eggert Jóhannesson

FH vann góðan 3:2-sigur á Víkingi úr Reykjavík þegar liðin mættust í 1. deild kvenna í knattspyrnu, Lengjudeildinni í Kaplakrika í kvöld. Tindastóll hafði þá betur gegn Fylki, sem hefur tapað báðum leikjum sínum í deildinni til þessa og HK og Grindavík unnu einnig góða sigra.

FH, HK og Tindastóll eru því öll með sex stig eftir fyrstu tvær umferðirnar en Fjölnir og Fylkir eru bæði stigalaus eftir tvo leiki.

Flest mörkin í leik FH og Víkings komu í einum hnapp á um stundarfjórðungs kafla undir lok fyrri hálfleik en þessum liðum var í mótsbyrjun spáð tveimur efstu sætum deildarinnar.

Shaina Ashouri kom FH yfir á 29. mínútu og aðeins tveimur mínútum síðar skoruðu Víkingar sjálfsmark og tvöfölduðu þannig forystu Hafnfirðinga.

Tara Jónsdóttir minnkaði hins vegar muninn fyrir Víking á 36. mínútu áður en Ashouri skoraði aftur skömmu fyrir leikhlé. Christabel Oduro minnkaði muninn í síðari hálfleik en fleiri urðu mörkin ekki og FH fór með sigrinum á topp deildarinnar.

Tindastóll gerði góða ferð í Árbæinn og vann Fylki 1:0 í uppgjöri liðanna tveggja sem féllu úr úrvalsdeildinni síðasta haust. Arna Kristinsdóttir, sem er í láni hjá Tindastóli frá Þór/KA, skoraði sigurmarkið í lok fyrri hálfleiks. Aldís María Jóhannsdóttir hjá Tindastóli fékk rauða spjaldið á 82. mínútu en tíu Skagfirðingar héldu út og lönduðu sigrinum.

HK tók á móti Fjölni í Kórnum og hafði að lokum sigur, 4:2, í sveiflukenndum leik. María Lena Ásgeirsdóttir kom HK yfir á 8. mínútu en Sara Montoro jafnaði fyrir Fjölni mínútu síðar og skoraði síðan aftur þegar tíu mínútur voru liðnar af síðari hálfleik. María Lena skoraði aftur á 74. mínútu og jafnaði, 2:2. Á lokakaflanum skoruðu síðan Isabella Eva Aradóttir og Arna Sól Sævarsdóttir og tryggðu HK sigurinn.

Grindavík tók á móti Haukum og sigraði 2:0. Haukar misstu Berglindi Þrastardóttur af velli með rautt spjald eftir hálftíma leik og Grindavík fékk vítaspyrnu sem Mimi Eiden skoraði úr. Tinna Hrönn Einarsdóttir bætti við marki á 72. mínútu og tryggði sigur Grindvíkinga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert