Veitur skipta út heitu vatni á morgun

Breytingin nær til Kjalarness og hverfa vestan Elliðaáa.
Breytingin nær til Kjalarness og hverfa vestan Elliðaáa. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

Á morgun verður skipt úr heitu vatni í þeim hverfum sem liggja vestan Elliðaáa og á Kjalarnesi. Notendur á þessum stöðum gætu orðið varir við minni háttar truflanir meðan skiptin eiga sér stað en þeir ættu þó ekki að finna mun á vatninu.

Heita vatnið á þessu svæði hefur hingað til komið úr borholum á jarðhitasvæðum í Reykjavík og Mosfellsbæ en á morgun verður því breytt þannig að hverfin þar munu nú fá upphitað vatn frá virkjunum Orku náttúrunnar (ON) á Hellisheiði og á Nesjavöllum, að því er segir í tilkynningu. 

Um tímabundna aðgerð er að ræða en þessi tilhögun á að standa yfir fram í seinni hluta júlímánaðar. Með þessari aðgerð er allt höfuðborgarsvæðið komið á virkjanavatn en í tilkynningu frá Veitum segir að aðgerðin létti á vinnslu úr jarðhitasvæðum svo hægt sé að tryggja sjálfbæran rekstur þeirra um ókomna framtíð og á sama tíma nýta betur framleiðslugetu virkjananna. Þar segir einnig að svipað fyrirkomulag hafi verið haft á afhendingu vatns í nokkrum hverfum undanfarin ár og reynslan af því sé góð.

Ekki á að vera martktækur munur á þessum tveimur tegundum heits vatns, hitastigi þess eða þrýstingi. Helsti munurinn á virkjanavatni og jarðhitavatni er sá að jarðhitavatn kemur úr borholum og er veitt beint þaðan inn á dreifikerfið en virkjanavatnið er upphitað grunnvatn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert