Markaðsvirði indversku samsteypunnar Adani Group og félaga tengdri henni hefur nú lækkað um meira en 70 milljarða dala, eða nærri 10 þúsund milljarða króna, frá því að skortsalinn Hindenburg Research birti ítarlega skýrslu á þriðjudaginn síðasta með ásökunum á hendur samsteypunnar um markaðsmisnotkun og bókhaldssvindl.

Adani Group birti yfir 54 blaðsíðna svar við ásökunum Hindenburgh í gær en skýrslan innihélt auk þess fleiri en 350 blaðsíðna viðauka. Samsteypan lýsti því að ásakanirnar væru ekki aðeins óréttmæt árás á einstök félög heldur úthugsuð árás á Indland.

Hindenburgh Research sagði að samsteypan hefði ekki svarað fyrir lykilásakanir sínar, sem snúast m.a. um fjölda grunsamlegra millifærslna til aflandsfélaga.

Svo virðist sem samsteypunni hafi ekki tekist að draga úr áhyggjum fjárfesta en hlutabréf þriggja félaga í Adani netinu féllu um fimmtung í morgun. Hlutabréfaverð flaggskipsins Adani Enterprise hækkaði þó lítillega en er þó töluvert undir neðra mörkum útboðsgengis í 2,4 milljarða dala hlutafjárútboði félagsins sem lýkur á morgun.

Gautam Adani, ríkasti maður Asíu, er stofnandi og aðaleigandi samsteypunnar. Auðæfi hans hafa lækkað um tugmilljarða dala á síðustu dögum og um 8,5 milljarða dala til viðbótar frá því í gærkvöldi, samkvæmt rauntímalista Forbes. Hann er nú áttundi ríkasti maður heims með 88 milljarða dala auðæfi en hann var í þriðja sæti listans í byrjun síðustu viku.