Færeyska stjarnan lengi frá keppni

Elias Ellefsen á Skipagötu.
Elias Ellefsen á Skipagötu. Ljósmynd/in.fo

Færeyingurinn Elias Ellefsen á Skipagötu, sem er talinn einn efnilegasti handboltamaður Evrópu um þessar mundir, er úr leik vegna hnjámeiðsla og verður frá keppni fram í febrúar eftir að hafa gengist undir uppskurð.

Elias leikur með Sävehof í sænsku úrvalsdeildinni, eins og Selfyssingurinn Tryggvi Þórisson, og var valinn besti miðjumaður deildarinnar á síðasta keppnistímabili, ásamt því sem leikmenn deildarinnar kusu hann besta leikmanninn. Hann kom til félagsins fyrir tveimur árum og þýska stórliðið Kiel hefur þegar tryggt sér krafta hans frá og með sumrinu 2023.

Elias, sem er aðeins tvítugur, sló í gegn með færeyska landsliðinu í undankeppni EM á síðasta ári og átti drjúgan þátt í sænskum meistaratitli Sävehof vorið 2021, á sínu fyrsta tímabili með liðinu.

Þjálfari Sävehof, Michael Applegren, segir við Aftonbladet að meiðslin hjá Færeyingnum sé gríðarlegt áfall fyrir liðið og komi í kjölfarið á mikilli meiðslahrinu hjá liðinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert