Vildi benda á að unnið væri beggja vegna borðsins

Björn Leví Gunnarsson í einni af þremur vettvangsferðum undirbúningskjörbréfanefndar til …
Björn Leví Gunnarsson í einni af þremur vettvangsferðum undirbúningskjörbréfanefndar til Borgarness. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata og nefndarmaður í kjörbréfanefnd, segir að hann hafi ekki viljað skrifað undir greinargerð nefndarinnar um talningu í Norðvesturkjördæmi, þar sem einhverjir starfsmenn Alþingis er komu að gerð greinagerðarinnar störfuðu einnig í landskjörstjórn.

Á sama tíma segist hann ekki vilja gera veður úr málinu þar sem hann sé ekki í stöðu til þess. Hann vilji einungis benda á þessa staðreynd og vill því ekki skrifa undir greinargerð þar sem þetta er ekki tiltekið.

„Það eru þarna starfsmenn Alþingis sem eru líka starfsmenn landskjörstjórnar, þá eru þau að vinna að sama máli á tveimur mismunandi stjórnsýslustigum. Vanhæfnisákvæði stjórnsýslulaga eru rosalega skýr hvað þetta varðar: ef þú vannst að máli á einu stigi, þá gerirðu það ekki á öðru stigi. Það er bara grundvallarregla til þess að búa ekki til möguleikann á því að áhrif sem þú hafðir á málið á fyrri stigum, að þú sért að viðhalda því á síðari stigum þess, til þess að jafnvel verja afstöðu sem þú tókst í málinu áður,“ segir Björn Leví í samtali við mbl.is.

Kjörbréfanefnd fundar eftir setningu Alþingis.
Kjörbréfanefnd fundar eftir setningu Alþingis. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ekki farið að lögum sem nefndin setti sér sjálf

Greinargerð og álit kjörbréfanefndar voru kynnt í gær og birt á vef Alþingis. Þingmenn munu á morgun kjósa um þær tillögur sem fyrir liggja og líklegt má þykja að þar verði ofan á tillaga að um niðurstaða síðari talningar í Norðvesturkjördæmi verði látin standa.

Björn Leví segir að hann hafi ekkert út á efnislega vinnu nefndarinnar að setja, einungis þann formlega ágalla að starfmenn Alþingis komi að málinu á mismunandi stjórnsýslustigum, sem brýtur þá í bága við stjórnsýslulög.

„Nefndin samþykkti, og við fengum til okkar stjórnsýslufræðing og svo framvegis, að af því þetta er nefnd þingsins þá heyrir hún tæknilega séð ekki undir stjórnsýslulög. En okkur var samt sem áður sagt að við værum að taka eins konar stjórnsýsluákvörðun – að þetta væri ákveðinn bastarður. Þannig nefndin samþykkti að fara að stjórnsýslulögum í þessu máli, hún samþykkti það fyrir sjálfa sig,“ segir Björn Leví.

Vissi ekki af kæru fyrr en í gærkvöld

Í dag var greint frá því að Jón Þór Ólafsson, fyrrverandi þingmaður Pírata, hafi kært talningu atkvæða í Norðvesturkjördæmi til lögreglu. Spurður hvort hann hafi vitað að það væri í pípunum segir Björn Leví að svo hafi ekki verið. Hann hafi frétt af áformunum í gærkvöldi, þegar greinargerð og álit kjörbréfanefndar höfðu þegar verið birt.

„Hann er greinilega búinn að vinna í henni lengur, frá því að drögin að málsatvikalýsingunni voru gefin út. Það sést alveg greinilega að hann er að vísa fyrstu drög.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert