„Við fáum á okkur tilviljunarkennd mörk“

Úr leiknum í kvöld.
Úr leiknum í kvöld. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

ÍBV fékk KR í heimsókn í Bestu deild karla í knattspyrnu á Hásteinsvelli í kvöld. KR-ingar höfðu betur 2:1, en sóknarleikur beggja liða fékk að lúta í lægra haldi fyrir þéttum varnarleik.

Jón Ingason var mættur í byrjunarlið Eyjamanna en hann sleit krossband fyrir tímabilið í fyrra. Hann var að vonum ánægður með að vera mættur út á völlinn aftur en eðlilega súr með úrslitin.

„Tilfinningin að komast út á völlinn aftur er góð að því leiti að sigrast á þessu loksins, og gera það hérna á Hásteinsvelli fyrir framan okkar áhorfendur og mitt fólk. En þetta litast náttúrulega af því að leikurinn tapaðist.

Ég hefði viljað vinna leikinn í þokkabót og mér fannst við eiga það skilið í dag. Mörkin sem við fáum á okkur eru tilviljunarkennd mörk og hlutirnir ekki að falla með okkur núna. En ég er vissulega stoltur af sjálfum mér,“ sagði Jón.

Eyjamenn hafa byrjað tímabilið illa og sitja í 10. sæti með tvö stig eftir fimm umferðir. Fyrir tímabilið var ÍBV almennt spáð fyrir ofan fallsætin, en svo virðist sem Eyjamenn gætu átt erfitt sumar fyrir höndum.

„Við viljum vera með fleiri stig í töflunni og inni í þessu eru þrír leikir á Hásteinsvelli þar sem við stefnum á að vinna hvern einasta leik. Við eigum ekki að tapa hérna heima. Mér fannst við eiga meira skilið úr þessum leik en það eru mörkin sem telja og við erum því miður ekki að skora nógu mikið þessa stundina til að vinna leikina.

Við erum líka að fá á okkur ódýr mörk, svo ég sé ekki að setja þetta á sóknina. Þetta er liðið í heild sinni sem verður að halda haus. Það er nóg eftir að mótinu og engin ástæða til að örvænta. Við höfum trú á okkur og við munum snúa þessu við,“ sagði Jón, sem komst vel frá endurkomuleik sínum þrátt fyrir tap.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert