Flyr í þrot

Boeing 737-800-farþegaþota Flyr. Stjórn félagsins lýsti gjaldþroti þess yfir í …
Boeing 737-800-farþegaþota Flyr. Stjórn félagsins lýsti gjaldþroti þess yfir í dag í kjölfar þungs róðurs á norskum flugmarkaði. Greinandi efar að fleiri norsk flugfélög líti dagsins ljós um sinn. Ljósmynd/Wikipedia.org/NewYard25

Norska flugfélaginu Flyr eru allar bjargir bannaðar og tilkynntu stjórnendur þess í dag að félagið væri gjaldþrota. Viðskiptavinum, sem sitja eftir með sárt ennið og greidda en ónothæfa flugmiða, er bent á að leita til greiðslukortafyrirtækja sinna um endurgreiðslur. Rúmlega 400 manns missa vinnuna.

Tók stjórn Flyr einróma ákvörðun um að lýsa félagið gjaldþrota á fundi síðdegis í dag á þeirri forsendu að grundvöllur frekari rekstrar væri brostinn en allt flug félagsins lagðist niður frá og með deginum í dag, viðskiptavinum ferðaskrifstofunnar Ving til mikilla búsifja en Flyr hafði annast leiguflug til og frá Mallorca, Krít og Tenerife fyrir stofuna.

„Þetta er sorgardagur. Við reyndum. Við neyttum allrar okkar orku, þekkingar og reynslu en það hrökk ekki til,“ segir Erik Braathen, stofnandi og stjórnarformaður félagsins, í fréttatilkynningu í dag.

Sársaukafull vonbrigði

Brede Huser, forstjóri Flyr, biður þá viðskiptavini sína forláts sem verða fyrir barðinu á þrotinu og Braathen tekur undir. „Ég bið þá gesti okkar afsökunar sem sitja uppi með ónýtar ferðaáætlanir, samstarfsaðila sem leita þurfa annað, hlutabréfaeigendur sem tapa á fjárfestingu sinni og starfsfólk sem skyndilega er án vinnu. Að gera svo mörgum vonbrigði er sársaukafullt,“ segir stjórnarformaðurinn.

Espen Andersen, greinandi við BI-viðskiptaháskólann, kveðst ekki hissa á þróun mála. „Þetta kemur alls ekki á óvart. Þeir [Flyr] hafa aldrei þénað neitt fé og útlitið var dökkt, einkum og sér í lagi vegna þess að Norwegian og SAS virðast ætla að ná gegnum öldudalinn,“ segir greinandinn og kveður örlög félagsins samtvinnuð í óhóflegri bjartsýni og misreiknuðum markaðsaðstæðum.

„Norwegian var í kröggum samtímis og það var SAS líka og þeir [Flyr] vonuðust kannski eftir að fá að hanga í sama björgunarhring og þessi félög fengu. Eins var bjartsýnin mikil varðandi flugumferðina. Við Norðmenn fljúgum mikið, en vandamálið var að þeir [Flyr] áttu í höggi við keppinauta sem höfðu komið ár sinni fyrir borð og gátu keppt með því að lækka fargjöldin,“ segir Andersen og spáir því að bið verði á að ný norsk flugfélög komi fram á sjónarsviðið úr því sem komið er.

NRK

E24

Nettavisen

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert