„Gerðum ekkert af því sem um var talað“

Jónatan Þór Magnússon
Jónatan Þór Magnússon Ljósmynd/Þórir Tryggvason

„Ég er bara fúll eftir þetta. Við byrjuðum seinni hálfleikinn gjörsamlega eins og við hefðum ekkert talað saman í hálfleik,“ sagði Jónatan Magnússon, þjálfari KA, eftir naumt tap gegn Selfossi í Olísdeild karla í handbolta í kvöld, 25-24 á Selfossi.

„Við komum okkur í vonda stöðu á þessum kafla og gerðum ekkert af því sem um var talað í hálfleik. Svo er bara bullandi barátta og karakter í liðinu og við komum okkur aftur inn í leikinn. Varnarleikurinn var frábær í seinni hálfleik og markvarslan var frábær allan leikinn en þetta er súrt. Það vantaði mjög lítið uppá. Við ætluðum okkur sigur og svo erum við fúlir í restina,“ sagði Jónatan en það hitnaði vel í kolunum á lokamínútunni þar sem þjálfarar beggja liða fengu gult spjald.

„Mér fannst tveir dómar mjög skrítnir en það þýðir ekkert að tala um það, þetta eru síðustu sekúndurnar en mér fannst Selfoss fá ótrúlega langa síðustu sókn. Ég ætla ekkert að kommenta á dómarana, það var í okkar höndum að klára þetta og við gerðum það ekki. Við lögðum mikið í leikinn og uppskárum því miður ekkert og það er mjög fúlt,“ sagði Jónatan að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert