„Feginn að Steinar hafi sloppið heill frá þessu“

Jón Þór Hauksson, þjálfari ÍA.
Jón Þór Hauksson, þjálfari ÍA. Ljósmynd/Kristinn Steinn

Jón Þór Hauksson, þjálfari ÍA, sagði að jafntefli hafi líklegast verið sanngjörn niðurstaða eftir að liðið gerði 1:1-jafntefli við FH í Bestu deild karla í knattspyrnu í kvöld.

„Þetta var erfiður leikur fyrir bæði lið náttúrlega útaf veðri og vallaraðstæðum sem voru í aðalhlutverki og svekkjandi úr því sem komið var að vera komnir með forystu í leiknum að ná ekki að klára það.

Föstu leikatriðin eru eitthvað sem við eigum að geta komið í veg fyrir og því held ég að jafntefli sé sanngjörn niðurstaða í dag,“ sagði Jón Þór í samtali við mbl.is eftir leik.

ÍA hefur ekki unnið leik síðan í annari umferð þegar liðið vann Víking Reykjavík 3:0. Jón Þór sagði spilamennsku síns liðs ekki gefa til kynna niðurstöður í leikjum.

„Við spilum glimrandi góðan fótbolta í Frostaskjóli í síðustu viku og verðskulduðum sigur þar og erum búnir að spila tvo leiki núna í röð þar sem við höfum forystu þegar lítið er eftir þannig að það er svekkjandi að fá ekki sigur í allavega öðrum hvorum þeirra.

Mér finnst strákarnir hafa lagt virkilega hart að sér í pásunni og koma virkilega sterkir til leiks eftir þetta landsleikjahlé og vera að sýna tvo fína leiki og við erum bara að fá á okkur of mikið af mörkum úr einföldum atriðum sem á að vera einfalt að laga og á meðan við stoppum það ekki þá kemur sigurinn ekki en það er stutt í hann.“

Jón Þór var feginn að Steinar Þorsteinsson hafi komið óhultur úr tæklingunni frá Davíð Snæ Jóhannssyni sem uppskar rautt spjald.

„Ég er feginn að Steinar hafi komið heill út úr þessu, hann kemur auðvitað á miklum krafti inn í þessa tæklingu en ég hef svo sem enga aðra skoðun á því.

Ég er bara feginn að Steinar hafi sloppið frá þessu, völlurinn auðvitað blautur, þungur og menn misreikna boltann og þá taka menn þessar ákvarðanir og fleygja sér í mómentin.

Ég held að það hafi ekki verið hægt að segja neitt við þessu en ég hef svo sem ekki séð þetta aftur en ég er bara feginn að Steinar hafi sloppið heill frá þessu,“ sagði Jón Þór að lokum í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert