„Frem glæp í hvert skipti sem ég vel byrjunarliðið“

James Ward-Prowse var á meðal þeirra leikmanna sem nýttu tækifærið …
James Ward-Prowse var á meðal þeirra leikmanna sem nýttu tækifærið gegn Andorra vel. AFP

Gareth Southgate, þjálfari enska karlalandsliðsins í knattspyrnu, segir það alltaf vera hausverk að velja byrjunarlið sitt þar sem hann hafi úr svo mörgum gæðaleikmönnum að velja.

Southgate sagði á blaðamannafundi í gær fyrir leik liðsins í undankeppni HM 2022 að hann hefði verið ánægður með þann fjölda leikmanna sem gripu tækifæri sín í byrjunarliðinu í 5:0 sigrinum gegn Andorra síðastliðinn laugardag.

„Það er mikilvægt að þeir átti sig á virði sínu og að þeir geti lagt sitt af mörkum. Þetta var ekki vináttuleikur gegn Andorra, það voru stig í undankeppni í boði og ég var mjög ánægður með gæðin í frammistöðunni og hvernig leikmenn báru sig að því að ná henni fram.

Þetta er alltaf hausverkur og ég frem glæp í hvert skipti sem ég vel byrjunarliðið. Það er svo mikil og hörð barátta um sæti í liðinu og það var fjöldi leikmanna sem gerðu eigin sjálfstrausti og orðspori afar gott á laugardaginn og það er mjög ánægjulegt að sjá,“ sagði hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert