Smit á hjúkrunarheimilinu Grund

Hjúkrunarheimilið Grund við Hringbraut.
Hjúkrunarheimilið Grund við Hringbraut. mbl.is/Ómar

Starfsmaður á hjúkrunarheimilinu Grund greindist smitaður af Covid-19-veirunni í gær. þetta staðfestir Sigríður Sigurðardóttir, sviðsstjóri fræðslu- og gæðadeildar hjúkrunarheimilisins, í samtali við mbl.is.

Ríkisútvarpið greindi fyrst frá málinu.

Starfsmaðurinn var síðast í vinnu á fimmtudagsmorgun. Sigríður segir að allt starfsfólk hafi verið skimað sem og allir íbúar hjúkrunarheimilisins, að höfðu samráði við smitrakningarteymi Almannavarna. 

„Vegna þess hve langur tími leið, það er frá fimmtudegi fram á mánudag, þá taldi smitrakningarteymið ekki ástæðu til þess að setja starfsfólk í sóttkví. Þau mega mæta til vinnu með grímu og gæta bara fyllstu varúðar.“

Skima meira frekar en minna

Sigríður segir niðurstaðna að vænta úr skimunum að hluta til í kvöld.

„Við munum vita meira á morgun.“

Hún bendir einnig á að mikil bólusetningarþátttaka sé meðal starfsfólks og íbúa. Spurð hvort hún sé bjartsýn á að smitið hafi ekki dreift sér innanhúss segir hún: 

„Maður er náttúrlega aldrei viss, það er það sem maður hefur lært undanfarna mánuði. En við ákváðum að fara þessa leið, að skima meira frekar en minna til þess að hafa varann á.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert