Hægir á bandarískum vinnumarkaði

AFP

Nýjustu tölur sýna að um 266.000 ný störf urðu til í Bandaríkjunum í apríl og að atvinnuleysi jókst lítillega í mánuðinum. Til samanburðar fjölgaði störfum um 770.000 í mars og bendir þróunin á milli mánaða til þess að viðsnúningur bandarísks efnahagslífs á lokametrum kórónuveirufaraldursins verði ekki eins hraður og vonir stóðu til. FT bendir á að í apríl hafi um 8,2 milljónum færri Bandaríkjamenn verið vinnandi en í febrúar 2020.

Þegar rýnt er í tölurnar má sjá að ágætis uppgangur er í afþreyingar-, hótel- og veitingageira þar sem 331.000 ný störf urðu til í mánuðinum en á móti kom samdráttur í öðrum geirum atvinnulífsins, s.s. bílaframleiðslu og verslunargeira með tilheyrandi fækkun starfa.

Að sögn FT má m.a. skýra þróunina í apríl með því að eftir því sem bandaríska hagkerfinu vex þróttur á ný megi vænta skrykkjótts vaxtar og þannig hafi þróunin í marsmánuði verið langt umfram spár sérfræðinga. Þá sé enn eftir að bólusetja að fullu allstóran hóp Bandaríkjamanna og því hugsanlegt að heilsufarsástæður valdi því að sumir launþegar vilji bíða lengur með að hefja störf.

Börnin flækja málið

Þá er skólastarf ekki alls staðar komið í eðlilegt horf. Í sumum ríkjum Bandaríkjanna eru skólar ekki að fullu opnir og allur gangur á því hvort dagvistun er í boði. Sýna vinnumarkaðsmælingar enda að karlar virðast snúa hraðar til starfa en konur og hugsanlegt að margar mæður hafi ákveðið að bíða með að fara aftur á vinnumarkaðinn þar til næsta haust og gæta bús og barna á meðan.

Loks kunna bótagreiðslur hins opinbera að hafa letjandi áhrif en sem liður í efnahagsaðgerðum stjórnvalda voru atvinnulausum greiddar 300 dala viðbótarbætur vikulega frá því í mars síðastliðnum. Hvert ríki ræður því hvort það greiðir þessar aukabætur en í síðustu viku tilkynntu yfirvöld í Montana og Suður-Karólínu að viðbótin yrði felld niður og var það gert með þeim rökum að greiðslurnar yllu skorti á vinnuafli enda atvinnuleysisbætur í sumum tilvikum hærri en þau laun sem fólk gæti vænst á almennum vinnumarkaði. ai@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK