Fótbolti

Frakk­land kláraði Holland á tuttugu mínútum

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Kylian Mbappé skoraði og lagði upp.
Kylian Mbappé skoraði og lagði upp. EPA-EFE/MOHAMMED BADRA

Frakkland og Holland mættust í áhugaverðasta leik kvöldsins í undankeppni EM 2024. Bæði lið fóru langt á HM í Katar en töpuðu gegn Argentínu sem stóð uppi sem heimsmeistari. Leikur kvöldsins var aldrei spennandi en Frakkar kláruðu dæmið strax í fyrri hluta fyrri hálfleiks.

Antoine Griezmann skoraði strax á 2. mínútu leiksins eftir sendingu frá Kylian Mbappé. Staðan var orðin 2-0 strax á 8. mínútu þegar miðvörðurinn Dayot Upamecano kom boltanum í netið. Mbappé sjálfur skoraði svo á 21. mínútu og segja má að leiknum hafi þá verið lokið.

Ekki var meira skorað í fyrri hálfleik og raunar virtist ekki sem það yrði skorað í þeim síðari. Það er þangað til Mbappé skoraði sitt annað mark á 88. mínútu. Memphis Depay fékk kjörið tækifæri til að klóra í bakkann í blálokin þegar Holland fékk vítaspyrnu. Hún fór forgörðum og lokatölur á Stade de France-vellinum í París 4-0 heimamönnum í vil.

Frakkar hefja undankeppnina á hörkusigri á meðan Hollendingar byrja vægast sagt illa undir stjórn Ronald Koeman en hann tók við eftir HM í Katar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×